Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2008, Síða 13

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2008, Síða 13
FRÆÐSLUGREIN sjúkdómum og vanlíðan. Qi þýðir andi, orka eða lífsorka, gong þýðir færni eða stjórn. Ástundun qigong felur í sér líkamlegar stöður eða hreyfingar, hugleiðslu, einbeitingu og agaða öndun (Gerber, 2000). Með langtímaástundun qigong er hægt að þróa með sér færni til að stjórna lífsorkunni til hagsbóta fyrir líkama, heilsu og huga. Höfundar, sem fjallað hafa um qigong, fara ólíkar leiðir við að flokka og skilgreina aðferðina. Ein leið er að líta á qigong sem líkamlegar æfingar, aðferð til hugleiðslu, bardagalist eða blöndu af þessu öllu. Rætt er um virkt (active) qigong sem felur í sér líkamlegar hreyfingar eða óvirkt (passive) qigong sem felur í sér hreyfingalausar stöður og hugleiðslu (Cohen, 1997). Einnig er rætt um qigong sem innhverft (internal) þegar iðkandinn stundar æfingarnar á eigin forsendum eða úthverft (external) þegar leiðbeinandi beitir orku sinni til að hafa áhrif á heilsu og líðan annarra þátttakenda (Sancier, 1996). Rætur qigong liggja mörg þúsund ár aftur í kínverskri menningu. Líklega má rekja upphafið til náinna tengsla manns og náttúru - tíma þegar maðurinn átti alla sína tilveru og lífsafkomu undir því að skynja og skilja eðli náttúrunnar. Maðurinn lærði tækni og tileinkaði sér atferli úr náttúrunni. Finna má skírskotun til náttúrunnar f ýmsum heitum sem tengjast qigong-æfingum. Æfingar eru kenndar við dýrategundir og atferli þeirra, s.s. tígrisdýr, endur og apa. Jafnvel meðal íslenskra iðkenda hafa æfingar nöfn tengd náttúrunni, s.s. trjástaðan, flug villiandanna o.fl. Sjá má stöður. og hreyfingar sem líkjast qigong-æfingum í fornum kínverskum dönsum og leikjum. Ævafornir kínverskir textar fjalla um qigong, um orkuflæði, samspil efnis og anda, öndunartækni og útvíkkun hugans. Af rituðum heimildum má ráða að iðkun æfinganna tengist viðleitni mannsins til að lengja líf sitt, leita ódauðleikans og leita jafnvægis í heimi hins veraldlega og andlega. Á sama tíma tengist iðkun æfinganna heilbrigðu mataræði og neyslu náttúruefna (Cohen 1997). Mikilvægt er að hafa í huga að á þessum tíma er qigong ekki ein hugmynd heldur safn hugmynda, líkamlegra æfinga og andlegrar ástundunar sem byggist á sameiginlegri hugmyndafræði. Hugmyndirnar taka á sig ólíka mynd eftir landsvæðum, héruðum og jafnvel fjölskyldum. Kínverskar hugmyndir um qigong verða fyrir erlendum áhrifum frá indverskum jógahugmyndum og heimspeki og hugmyndum búddamunka frá Tíbet (Cohen, 1997). Þannig mótast qigong á mörgum öldum sem líkamlegar æfingar, hugleiðslutækni, öndunartækni og lífsviðhorf. Mótunaráhrifin eru náttúran, sagan, trúin og erlendir straumar frá nálægum menningarsamfélögum. Kínverskar hugmyndir um orkuflæði líkamans eiga sér samvörun í öðrum samfélögum. Augljósastareru samlíkingar frá nálægum menningarheimum, s.s. úr indverskum hugmyndum um jóga, sbr. prana sem er lífsorka þeirra hugmynda. Hugmyndir um lífsorku og orkuflæði má finna í menningu Afríkubúa sem örva orkuflæðið með dansi, frumbyggjar Ameríku töluðu um lífsorkuna sem vind og tengdu þannig öfl náttúrunnar og öfl lífsorkunnar. Jafnvel Hippókrates, guðfaðir nútímalæknisfræði, talar um eðlilegt og óhindrað flæði og jafnvægi líkamsvessa sem grundvöll heilbrigðis (Cohen, 1997). Einnig má velta fyrir sér hvort hugmyndir nútímamannsins um sálina séu ekki nátengdar hugmyndum um orkuflæði líkamans. Þróun qigong Með tilkomu taóisma (Daoisma) á 3.-5. öld fyrir Krist, fá hugmyndir og aðferðir qigong öflugan farveg í kínverskri menningu. Taoismi var hugmyndfræðilegt kerfi sem lagði áherslu á einfalt reglubundið líf og náið samband iðkenda við náttúruna. í fyrstu vartaóismi einungis hugmyndafræðilegt kerfi en þróaðist síðar í ein af megintrúarbrögðum Kínverja sem voru við lýði næstu 2000 ár (Robinson, 2008). Aðferðir qigong urðu samþættar menningarheimi taóismans og daglegu lífi kínversku þjóðarinnar. Árið 1973 fundu fornleifafræðingar dúkmyndir í Kína sem taldar eru vera frá 168 fyrir Krist. Þessar myndir sýna stöður og hreyfingar sem svara til qigong- hreyfinga nútímans. Með myndunum eru skýringar og tákn sem vi'sa til innri líffæra mannsins sem bendir til að iðkun umræddra æfinga hafi haft einhvers konar skírskotun til heilsu og heilbrigðis. Myndirnar benda einnig til þess að qigong-æfingar hafi verið stundaðar af báðum kynjum og af fólki á öllum aldri (Cohen, 1997). Qigong sem heilsteypt kerfi er ekki nefnt undir því nafni fyrr en á fyrri hluta 20. aldar. Á 20. öld er mikill áhugi á qigong í Kína, iökendur eru fjölmargir og fyrstu formlegu rannsóknir á virkni qigong líta dagsins Ijós. Nýjar aðferðir eru kannaðar og leitast við að koma skipulagi á gamlar leiðir til iðkunar á qigong. Umræðu um qigong sem meðferðarúrræði er hægt að rekja aftur til ársins 1936 þegar fyrsta ritið er útgefið sem fjallar skipulega um qigong í þeim skilningi (Cohen, 1997). Kommúnistaríkið Kína er stofnað 1949. Á fyrstu 20 árum kommúnista var qigong áfram hluti af kínverskri menningu. Með menningarbyltingunni 1966 varð mikil breyting á - iðkun qigong var stranglega bönnuð. Menningarverðmæti, sem tengdust fornri sögu og siðum Kínverja, voru eyðilögð og munkar, menntamenn og andlegir meistarar qigong reknir út á akrana. Menningarbyltingunni iýkur 1976 og þá slaknar á klónni, iðkendur byrja að stunda qigong aftur. Smátt og smátt öðlast qigong viðurkenningu að nýju meðal stjórnvalda og á níunda áratug síðustu aldar verður qigong aftur hluti af mennta- og vísindakerfi kínversku þjóðarinnar (Cohen, 1997). Nú er talið að um 60 milljónir manna stundi qigong í Kína með reglulegum hætti (Sancier, 1996). Qigong hefur aldrei náð mikilli útbreiðslu í Evrópu þrátt fyrir að áhugi hafi farið vaxandi undanfarin ár (Gerber, 2000). í Evrópu má rekja líkamsræktarhugmyndir aftur til menningarsamfélags Grikkja frá 6. öld fyrir Krist þar sem íþróttir hvers konar voru í hávegum hafðar. Hippókrates er talinn vera upphafsmaður þeirra hugmynda að líkamleg hreyfing hefði heilsufræðilegt gildi. Evrópubúar héldu áfram að hafa áhuga á líkamsæfingu í þeim tilgangi að viðhalda hreysti í gegnum söguleg tímabil, Rómverja, miðalda, endurreisnar og síðari tíma. Tímarit hjúkrunarfræðinga - 3. tbl. 84. árg. 2008 11

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.