Orð og tunga - 26.04.2018, Page 12
Orð og tunga 20 (2018), 1–20. © Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum
fræðum, Reykjavík.
l
Helgi Skúli Kjartansson
Sproti. Geta fornar skógarnytjar
skýrt margslungið merkingarsvið?
1 Inngangur
Orðið sproti getur átt við býsna ólíka hluti, bæði í seinni tíma íslensku
og ekki síður í fornmáli; er sú fjölbreytni rakin í kafla 2 hér á eftir.
Ekki liggur í augum uppi hvernig þær merkingar eru leiddar hver
af annarri. Hér er, í kafla 3, athygli beint að fornri aðferð við skógar-
nytjar og í framhaldi af henni, í kafla 4, sett fram sú tilgáta að orðið
sproti hafi í norrænu fornmáli einkum verið haft um teinunga stýfðra
lauftrjáa og séu aðrar merkingar orðsins að miklu leyti af því leiddar.
2 Vítt merkingarsvið
2.1 Sprotar ævintýranna
„Sprotum“ kynntist ég í uppvextinum aðallega sem veldissprotum kon-
unga og töfrasprotum galdranorna eða ámóta persóna. Hvorugt þekkti
ég nema af mynd, töfrasprotana úr myndskreyttum þjóðsögum eða
ævintýrum, veldissprotana einkum af mynd kónganna í spilum. Í
veruleikanum sá ég stundum stjórnanda kórs eða hljómsveitar sveifla
taktstokk sem einnig nefndist tónsproti, enda á allan vöxt áþekkur
hinum kunnuglegu töfrasprotum barnabókanna.
Í íslenskum þjóðsögum koma iðulega fyrir sprotar, jafnan notaðir
sem töfrasprotar, m.a. til að ljúka upp læstum dyrum, jafnvel hólum,
tunga_20.indb 1 12.4.2018 11:50:27