Orð og tunga - 26.04.2018, Page 26
Helgi Skúli Kjartansson: Sproti. Geta fornar skógarnytjar ... 15
Óvíst er hvort laufsproti hélt því nafni þegar búið var að naga af
honum lauf og börk. Laufsprotar hafa verið grannir og ungir, ekki
minnt á neitt barefli eða vopn. Þegar Óðinn, sjálfur „geirs dróttinn“,
gengur við svo sakleysislegan staf, á það væntanlega að vera Gungnir
í sams konar dulargervi og Óðinn sjálfur.
Reyrteinarnir, sem Magnús góði býður Haraldi harðráða að
velja á milli og einnig nefnast reyrsprotar, þeir gætu sem best verið
laufsprotar, táknrænir fyrir gróðursæld landsins sem konungar
skipta með sér, jafnvel friðsældartákn meðfram. Að minnsta kosti á
reyrsproti Starkaðar að vera einkar sakleysislegur. En „teinar“ sem
ekki eru reyrteinar gátu verið efnismeiri, einmitt eins og sprotarnir.
Þannig var hægt að nota teina sem hlunna til að draga á land
flutningabáta, ef marka má norskar helgidagareglur (NGL 1846:140)
sem á vissum helgidögum leyfa að menn „hlaði … síld á skip og flytji
og upp festi ef görvir eru teinar og áður til búnir. En eigi höggvi menn
þá teinaefni né til geri nema sekkjast vilji“ – þ.e. ef bjarga þarf skipi
á land svo það sökkvi ekki. Teinn er einnig nefndur í Heimskringlu
(1991:54), í draumi Ragnhildar drottningar í Hálfdanar sögu svarta.
Hana dreymir þyrni sem skyndilega breyttist og „varð teinn mikill,
… brátt … rótfastur“ og að síðustu risatré sem breiddi limar sínar um
allan Noreg. Þarna er teinninn upphaf að tré, einmitt eins og sproti
sem fær að vaxa óstýfður.
Orðið reyrsproti hlýtur reyndar að vekja þá spurningu hvaða jurta-
gróður hafi að fornu kallast reyr, sbr. reyrgresi síðari alda, og hvort
reyrsprotinn hafi þá ekki verið úr einhverju allt öðru en tré. En sú
spurning leiðir afvega. Reyrsprotar hafa ekki fengist af neinni sér-
stakri reyrplöntu26 heldur hafa það verið sprotar nógu grannir og
sveigjanlegir til að „reyra“ með þeim, þ.e. vefja eða binda. Líklega
hafa reyrsprotar helst fengist af víði, en það felst ekki í orðinu, og
kannski mátti kalla alla sprota reyrsprota sem voru nógu léttir og
grannir.
26 Og alls ekki plöntu í neinni líkingu við risagrösin bambusreyr og sykurreyr. Það
eru að vísu þær reyrtegundir sem helst koma fyrir í máli 19. og 20. aldar, en áður
varð Íslendingum tíðræddara um spanskreyr þó hann sé af allt öðrum uppruna,
þ.e. „grannir og sveiganlegir stönglar sérstakra flækjupálma … sem einkum vaxa
við Indlandshaf“ eins og ROH hefur eft ir virðulegu tímariti. Hann er „reyr“ af því
hann er grannur og sveigjanlegur, rétt eins og reyrsproti Óðins.
tunga_20.indb 15 12.4.2018 11:50:29