Orð og tunga - 26.04.2018, Síða 38
Katrín Axelsdóttir: Þórarinn í þágufalli 27
d. Ekki hef ég heyrt Þórarinsnafn beygt Þórarini í þágu-
falli, en í æsku minni vissi ég, að til var önnur óvenjuleg
beyging nafnsins – frá Þórarinum. Þetta mun þó hafa
verið sjaldgæft og er nú, að ég hygg, löngu horfið.
(Kristín Geirsdóttir, Hringveri, Tjörnesi)
e. „Honum Þórarini væri betra að hafa trefil um hálsinn
í þessum kulda“. „Það kom bréf frá honum Þórarinum
í morgun“. Svona orðalag þekki ég undan Eyjafjöllum,
en í miklum minni hluta. Flestir segja – honum Þórarni.
Því hef ég alltaf vanizt og tel, að hinar beygingarnar
séu að hverfa sem óðast úr mæltu máli hér um slóðir.
(Björg Jónsdóttir, Hellu)
f. Tvær manneskjur hér í sveit veit ég um, sem hafa notað
þágufallsmyndina Þórarinum um Þóra á Spóastöðum
og Tóta í Fellskoti. (Hreinn Erlendsson, Dalsmynni,
Biskupstungum)
Dæmin eru úr ýmsum landshlutum. Auk heimilda af Suðurlandi,
sem eru kannski ekki óvænt, sbr. ummælin í (7), eru hér heimildir
um orðmyndina í Reykjavík, Hnappadalssýslu, Ísafjarðarsýslu og
Suður-Þingeyjarsýslu.11 Og í þessu samhengi má minnast þess að
heimildarmaður af Skeiðum í Árnessýslu kveðst aldrei hafa heyrt
þágufallsmyndina Þórarinum, sjá (2b) í 2. kafla hér að framan.
Rétt er að taka fram að einhverjir heimildarmannanna kunna að
þekkja myndina Þórarinum úr ritum. Það á þó örugglega ekki við
heimildarmanninn í (8f) sem er beinlínis að hugsa um fólk sem hann
þekkir.
Eins og nefnt hefur verið eru fá dæmi um Þórarinum í ROH.12 Þau
sem hafa ekki enn verið nefnd eru tvö, bæði í Sjálfstæðu fólki, (9a–b). Í
sögunni er eitt dæmi til viðbótar sem er ekki í ROH, (9c).
(9) a. Hvernig fór ekki fyrir honum Þórarinum sáluga í Urð-
ar seli? (Halldór Kiljan Laxness 1952:60)
b. hann mundi svo sem eftir honum Þórarinum sínum
(Halldór Kiljan Laxness 1952:123)
11 Það mætti láta sér detta í hug að dæmin utan Suðurlands séu frá fólki sem bjó áður
sunnanlands. En það á a.m.k. ekki við um heimildarmennina í (8c–d). Guðmundur
Ingi Kristjánsson (1907–2002) ólst upp í Ísafjarðarsýslu (islendingabok.is) og
Kristín Geirsdóttir (1908–2005) bjó alla tíð á Tjörnesi (Auður Stefánsdóttir, munnl.
heimild).
12 Nefna má að engin dæmi eru um orðmyndina í Íslensku textasafni. Um myndina
Þórarni eru rúmlega 200 dæmi.
tunga_20.indb 27 12.4.2018 11:50:32