Orð og tunga - 26.04.2018, Side 116
Orð og tunga 20 (2018), 105–120. © Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum
fræðum, Reykjavík.
Matteo Tarsi
Að halda uppi lögum og reglu
Saga og orðmyndun orðsins lögregla
1 Inngangsorð
Í þessari grein1 verður fjallað um sögu og orðmyndun orðsins lögregla.
Það er ekki skráð í orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar þar sem
einungis er að finna orðið lögga (ÍOb, undir lögga). Orðið, sem hér er
til umfjöllunar, myndar að öðrum þræði sérstakt dæmi um afleiðslu.
Ef hugað er að formlegu sambandi liðanna tveggja, lög og regla, þá
liggur það í augum uppi að orðið er stofnsamsetning þar sem fyrri
liður sýnir hljóðverpt afbrigði af stofninum lag-, enda er orðið lög
‘form leg fyrirmæli löggjafans’ pluralia tantum. Ef til vill er það þó ekki
form gerð þessa orðs sem er það áhugaverðasta. Í greininni verður
reynt að ganga úr skugga um hvaðan þetta orð kemur, þ.e. hver saga
þess er og hvernig það varð til. Því verður haldið fram að orðatiltækið
1 Hugmynd að þessari grein fékk ég á vormisseri 2014 þegar ég var að skrifa stutta
ritgerð í námskeiði um íslenskt fjölmiðlamál. Ritgerðin snerist um heim ild ar-
mynd ina Árni Magnússon og handritin en þar (síðari hluta, 26:08) er orðið lög reglu-
stjóri lagt í munn Grunnavíkur-Jóni. Vafalaust mun Grunnavíkur-Jón aldrei hafa
sagt þetta orð á meðan á Kaupmannahafnarbrunanum stóð, en hann notar orðið
pólitímeistari í skýrslu sinni um þennan atburð (Jón Ólafsson 2005:65). Við ritun
þessarar greinar hafa eftirfarandi hjálpað mér og eiga þau þakkir skildar: Unnar
Ingvarsson (Þjóðskjalasafn Íslands), fyrir að hafa bent mér á sóknarmannatölin;
Alessandro Parenti (Università di Trento), fyrir góð ráð um greiningu afleiðsluferl-
is; Katrín Axelsdóttir og Jón Axel Harðarson (Háskóli Íslands), fyrir góðar sam-
ræður og ekki síst góðar ábendingar; Þórgunnur Snædal, Svavar Sigmundsson og
Ari Páll Kristinsson ritstjóri fyrir að hafa lesið yfir og leiðrétt greinina; Margaret
Cormack (College of Charleston), fyrir að hafa lesið yfir enska útdráttinn.
tunga_20.indb 105 12.4.2018 11:50:48