Morgunblaðið - 23.03.2018, Page 24
24 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. MARS 2018
Sundföt
2018
Bláu húsin v/Faxafen
Sími 553 7355 • www.selena.is • Selena
undirfataverslun • Næg bílastæði
VIÐTAL
Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
„Ég hef áður starfað í hinum ýmsu
löndum, en Ísland hefur lengi verið
mér kært – þetta er fyrsta landið
sem ég bjó í utan Kína og hér hóf ég
minn diplómatíska feril,“ segir Jin
Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, í
samtali við Morgunblaðið.
Zhijian kom fyrst hingað til lands
árið 1985 og stundaði nám í íslensku
og ensku við Háskóla Íslands og
starfaði í sendiráði Kína í Reykjavík
árin 1988 til 1991. Á þessum tíma
kynntist hann vel landi og þjóð, en í
febrúar síðastliðnum afhenti Zhijian
forseta Íslands trúnaðarbréf sitt á
Bessastöðum sem sendiherra Kína.
Er hann fyrsti kínverski sendiherr-
ann sem mæltur er á íslensku.
„Tími minn í háskólanum kenndi
mér ýmislegt, einkum um Ísland, og
ég man að mér fannst mjög gaman
þar. En á þessum tíma var ég eini
kínverski námsmaðurinn við skólann.
Maður kynntist auðvitað mörgum í
gegnum námið og eldaði ég oft kín-
verskan mat fyrir vini mína á Nýja-
Garði. Þau eru því mörg ævintýrin
frá þessum tíma sem maður á aldrei
eftir að gleyma,“ segir Zhijian og
heldur áfram: „Íslenska er mjög erf-
itt tungumál að læra og allt öðruvísi
en móðurmál mitt. Áður en ég yfirgaf
landið árið 1991 talaði ég mun betri
íslensku en ég geri nú. Maður reynir
samt að halda henni vel við, meðal
annars með því að horfa á sjónvarp,
hlusta á útvarp og ræða um málefni
líðandi stundar við Íslendinga í sund-
laugunum,“ segir Zhijian og hlær við.
Miklir en nokkuð ólíkir vinir
Stjórnmálasamband komst á milli
Íslands og Kína árið 1971. Samskipti
ríkjanna hafa verið góð allt frá þeim
tíma og opnuðu Kínverjar sendiráð í
Reykjavík 1972 og Íslendingar í Pek-
ing árið 1995. Fjöldi samninga er í
gildi milli ríkjanna, þ.á m. á sviði við-
skipta, menningar og ferðaþjónustu.
Zhijian segist bjartsýnn á aukna
samvinnu Íslands og Kína.
„Samskipti þessara tveggja landa
eiga sér langa sögu og það má segja
að þau hafi aldrei verið betri en ein-
mitt nú. Ísland var fyrst Evrópu-
landa til að gera fríverslunarsamning
við Kína og það var mjög mikilvægt
fyrir viðskipti milli landanna,“ segir
Zhijian og bætir við að margt sé þó
ólíkt með Íslandi og Kína.
„Þegar kemur að fólksfjölda,
stærð hagkerfis og félagskerfi þá er-
um við ólík. En Ísland og Kína hafa
þrátt fyrir það náð góðu sambandi og
er ég mjög bjartsýnn á framtíðina,“
segir Zhijian, en hann segist jafn-
framt finna fyrir miklum vilja frá
hendi Íslendinga og Kínverja til að
efla samstarf og samvinnu á hinum
ýmsu sviðum. Nefnir hann í því sam-
hengi jarðhita, innviði, málefni norð-
urslóða, menntun, menningu og
ferðaþjónustu. „Svo eru margir Ís-
lendingar mjög góðir í hönnun, ný-
sköpun og tækninýjungum. Ef við
gætum fundið tækifæri til að vinna
saman að nýjum verkefnum þá get-
um við látið til okkar taka,“ segir
Zhijian og bendir á að þótt langt sé á
milli Íslands og Kína skipti fjar-
lægðir litlu þegar stefnt sé að sam-
eiginlegum markmiðum.
Er eitthvað sem íslensk stjórnvöld
geta gert til að efla þetta samband?
„Ég held að Kínverjar og Íslend-
ingar þurfi að efla sambandið – ekki
bara íslensk stjórnvöld. Við þá vinnu
tel ég gagnkvæmt traust vera afar
mikilvægt því löndin eru á ýmsum
sviðum svo ólík. Við þurfum að auka
þekkingu og skilning hvert á öðru,
þ.e.a.s. þegar ágreiningur kemur upp
þurfum við að leita ráða og grípa til
viðræðna svo hægt sé að leysa málið
á farsælan hátt. Fulltrúar beggja
stjórnvalda mættu einnig eiga í nán-
ara sambandi og hittast oftar því það
er mjög mikilvægt til að koma á per-
sónulegu sambandi,“ segir hann og
bætir við að aukið samstarf á sviði
jarðhita sé einnig líklegt til að
styrkja sambandið.
Fólk ferðist á milli landanna
Kína er það land í Asíu sem flestir
ferðamenn koma til Íslands frá.
Zhijian segist myndu vilja sjá enn
frekari ferðir fólks á milli landanna
tveggja, meðal annars námsmanna.
„Við ættum að ýta undir ferðalög
fólks. Vissulega er langt á milli Ís-
lands og Kína, en núna er hægt að
koma á mjög góðum samgöngum og
tengja lönd okkar saman,“ segir
hann og bætir við að góðar sam-
göngur séu lykilatriði þegar komi að
samstarfi. „Ég vil því sjá meiri sam-
skipti á milli þjóðanna. Það væri
t.a.m. hægt með menningastarfsemi
ýmiss konar og skiptinámi.“
Þá segist Zhijian halda að Ísland
verði áfram einn heitasti áfanga-
staður ferðafólks frá Kína.
„Millistéttin í Kína telur um 400
milljónir manna. Þessi hópur fólks
hefur mikil tækifæri og sterkan vilja
til að ferðast um heiminn. Flestir
kunna þeir ensku, eru vel menntaðir
og hegða sér í anda heimsborgara.
Mín skoðun er sú að Ísland hefur nú
þegar orðið og mun áfram vera einn
af vinsælustu áfangastöðum margra
ferðamanna frá Kína, sérstaklega
þeirra sem yngri eru. Við þurfum því
að búa okkur undir komu fleiri gesta
hingað,“ segir hann.
Er þá ekki brýnt að koma á beinu
flugi á milli Keflavíkur og Kína?
„Það er mjög mikilvægt. Þetta er
eitt af þeim atriðum sem ég hef lengi
hugsað um og meðal annars talað
fyrir þessum samgöngum við hina
ýmsu stjórnmála- og embættismenn.
Ég tel að það sé vel hægt að opna
beina flugleið á milli Kína og Íslands
vegna þess að það bætist sífellt í hóp
þeirra sem vilja ferðast þessa leið.
Aukin viðskipti á milli landanna eru
einnig önnur ástæða,“ segir hann
bendir á að finna megi mikil tækifæri
í flutningum á ferskum fiski með
beinu flugi frá Íslandi.
„Íslendingar eru nú þegar þekktir
fyrir gæði þegar kemur að fiskvöru
og það er búið að byggja upp ímynd
Íslendinga á mörkuðum í Kína. Vör-
urnar eru þekktar fyrir hreinleika og
hollustu og það er góður grunnur að
frekari kynningu og sölu. Fengjum
við beint flug yrði hægt að koma
vörum til neytenda í Kína með fljót-
virkum hætti,“ segir hann. „Ég vil
sjá minnst eitt kínverskt og eitt ís-
lenskt flugfélag fljúga á milli land-
anna.“
Sér tækifæri í nánara samstarfi
& Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, vill efla samstarf og samvinnu Íslands og Kína á hinum ýmsu
sviðum & Mikilvægt að koma á beinum flugsamgöngum & Fyrsti sendiherrann sem talar íslensku
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Samstarfsríki Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, segist bjartsýnn á framtíðina þegar kemur að sambandi
Íslands og Kína, en hann vill meðal annars sjá fleiri skiptinema og persónulegra samband milli ráðamanna.
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Ís-
landi, segir frábært gengi karla-
landsliðs Íslands í fótbolta að undan-
förnu hafa vakið mikla athygli meðal
fótboltaunnenda í Kína.
„Það er í raun með ólíkindum
hversu margir Kínverjar hafa heyrt
um velgengni landsliðsins. Ég er
handviss um að fjölmargir kínversk-
ir fótboltaáhorfendur eiga eftir að
fylgjast grannt með gangi liðsins á
komandi heimsmeistaramóti. Sam-
kvæmt minni bestu vitund verður
vel fjallað um íslenska landsliðið í
Kína og mun t.a.m. kínverska ríkis-
sjónvarpsstöðin CCTV senda frétta-
menn hingað til lands. En þeir vilja
fjalla um allt sem tengist fótbolt-
anum og hvernig íslenska landsliðið
undirbjó sig fyrir keppnina og
hvernig Íslendingum tókst að ná
svona langt á svo skömmum tíma.
Ég vil því nýta tækifærið og óska lið-
inu velgengi ég mun fylgjast með.“
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Gleðistund Jin Zhijian segist ætla að fylgjast vel með leikjum Íslands á
komandi heimsmeistaramóti, en gott gengi liðsins vakti athygli í Kína.
Fréttamenn CCTV
fjalla um landsliðið