Breiðfirðingur - 01.04.1987, Blaðsíða 82
80
BREIÐFIRÐINGUR
Upphaf œvistarfs - Minningarbrot
Nú um þessar mundir, eða þann 1. febrúar 1982, var ég
búinn að starfa við iðngrein mína í 45 ár. Það mun teljast all-
þokkalegur starfstími í sömu grein. í rauninni er ég búinn að
vera um hálfa öld, þegar nánar er að gætt, í sama starfi. A
unglingsárum mínum hafði ég gaman af margs konar föndri,
það leiddi til þess að nágrannarnir báðu mig að gera eitt og
annað fyrir þá, sem ég reyndi ævinlega að verða við.
Á þeim tíma var talið sjálfsagt að hjálpa nágrannanum og
leysa hvers manns vanda eftir því sem við var komið. Flestir
lifðu við svipaðan hag, atvinnuleysi, fátækt og margs konar
áföll til sjós og lands. Það þekktist ekki, þó að gert væri
handarvik fyrir fólk að taka greiðslu fyrir, peningar lágu
ekki á lausu á þeim árum, enda oft vályndir dagar.
Þar sem ég var talinn lagtækur unglingur, féll margt til.
Fólkið í heimahögum mínum á Hellissandi leitaði eftir því
við mig, að ég gerði tilraun til að klippa það, því það var oft
vandkvæðum bundið að fá það gert úti á landsbyggðinni,
sem eðlilegt var á þeim tíma. Ég hafði gaman af að reyna
það, þó ég væri ekki nema 15 ára. Þessi tilraun mín smá-
þjálfaðist og allt gekk vel og þorpsbúar kunnu vel að meta
viðleitni mína um fimm ára skeið. Upp úr 15 ára aldri fékk
ég löngun til að gera þetta að lífsstarfi og komast í iðnnám
í hárskeraiðn lögum samkvæmt.
En það var ekki hlaupið að því fyrir bláfátækan pilt utan
af landsbyggðinni, sem hafði hvergi höfði sínu að halla og
enga aðstöðu til að komast í iðnnám á Reykjavíkursvæðinu.
Á þessum árum var ríkjandi kreppa, eða upp úr árinu 1930.
Iðngreinar voru í atvinnusvelti og fáir komust í iðnnám
nema helst í gegnum skyldleika og kunningsskap eins og nú
skal greina frá. Um 20 ára gamall var ég búinn að reyna í um
fimm ár að komast í iðnnám og var ég orðinn vonlaus um að
það tækist. En þó blundaði smáneisti í gegnum þolinmæðina
og mikinn áhuga, sem í raun reyndist boðberi þess sem
koma skyldi.
Það var um áramótin 1936-1937 að ég var staddur í