Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 44
BREIÐFIRÐINGUR44
í Breiðafirði. Afkomendur Bjarnar urðu forystumenn í héraði. Þeirra
fremstir voru líklega Vermundur og Víga-Styrr Þorgrímssynir, en Ósvíf-
ur Helgason á Laugum í Sælingsdal, faðir Guðrúnar, var einnig kominn
af Birni í beinan karllegg. Afkomendur Bjarnar voru venslamenn Snorra
goða og Þorkels Eyjólfssonar, ef marka má sögur.21 Ósvífur er einn fárra
manna sem nefndir eru í Íslendingabók og kemur ekki á óvart, þar sem
hann var forfaðir Ara. Hér er því í raun ein og sama ættin á ferð.
Enn eru ótaldir landnámsmenn á Skarðsströnd og Reykjanesi, en
það voru frændurnir Geirmundur heljarskinn og Úlfur hinn skjálgi.
Geirmundur fær þá einkunn í Sturlubók og Hauksbók Landnámu að
hann „hafi göfgastur verið allra landnámsmanna á Íslandi“ og er um
það vísað í dóm vitra manna. Ari getur hans þó ekki í Íslendingabók
og litlum sögum fer af afkomendum hans á fyrstu öldum byggðarinnar.
Öðru máli gegnir hins vegar um afkomendur Úlfs skjálga sem nam
allt Reykjanes samkvæmt Landnámu. Einn sonur Úlfs var Atli hinn
rauði en af honum var komin ætt höfðingja sem sátu hver eftir annan
á Reykhólum á 10. og 11. öld, Már Atlason, Ari Másson og Þorgils
Arason. Annar sonur Úlfs var Jörundur, faðir Þjóðhildar sem var gift
Eiríki rauða.22 Ari fróði var einnig af ætt Reykhólamanna. Samkvæmt
Laxdælu átti Þorgils Arason dóttur sem hét Valgerður en hana átti Gellir
Þorkelsson, afi Ara fróða. Ari og faðir hans hafa því hlotið nöfn úr
þessari ætt. Móðir Þorgils Arasonar var Þorgerður. Hún var dóttir Álfs
úr Dölum sem var dóttursonur Þorsteins rauðs.23
Af Reykhólamönnum hafa ekki varðveist sögur og við vitum ekki til
þess að Ari fróði hafi skrifað um þá sérstaklega. Samt sem áður er trúlegt
að þeir hafi verið í miklum metum um 1120. Þorgils Oddason var þá
forystumaður í Breiðafirðinum, en hann var dóttursonur Ara Þorgilssonar
á Reykhólum. Þeir Ari fróði voru því þremenningar. Í Þorgils sögu og
Hafliða kemur fram að Þorgils hafi þegið Reyknesingagoðorð úr hendi
21 Íslenzk fornrit I, bls. 122-23, Íslenzk fornrit IV, bls. 21, Íslenzk fornrit V, bls. 200–1,
206–7.
22 Íslenzk fornrit I, bls. 10, 151–56, 161-63.
23 Íslenzk fornrit V, bls. 11, 227–28.