Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 55
BREIÐFIRÐINGUR 55SAGNFRÆÐINGAR SK IFA UM BREIÐAFJÖRÐ
Sturlu son að ráða fyrir býlum sem þessum eða eiga þar a.m.k. öfluga
bandamenn.
Sælingsdalstunga
Öðru sinni segir frá því að Gestur Oddleifsson færi ríðandi úr
Saurbænum yfir í Sælingsdal á leið til alþingis og kæmi við á bænum
Laugum. Guðrún Ósvífursdóttir fór frá Sælingsdalstungu til laugar
á Laugum og hitti Gest (ÍF V, 87-8). Laugin hafði auðsæilega mikið
aðdráttarafl og þar dvöldust oft margir, eins og kemur fram í Laxdælu
og Sturlungu. Laugin var því mikilvæg fyrir samskipti fólks og allt
félagslíf, líkt og margar aðrar laugar á þjóðveldistíma en þó einkum þær
sem voru við þjóðleiðir, svo sem Hrunalaug, Reykholtslaug, Vallalaug
í Skagafirði og Hrafnagilslaug. Að Laugum var t.d. ekki langt að fara
fyrir þá sem bjuggu í Saurbænum eða á Skarðsströnd og hafa getað
hitt hér fólk, bæði úr nálægum sveitum og ferðamenn komna langt
að. Í Staðarhólsdal er býlið Bjarnastaðir og beint þar fyrir ofan bæinn
nefnist Gata. Þetta mun vera Ásólfsgata sem nefnd er í Sturlungu og
lá um Melárdal, sjálfsagt núverandi Seljadal, og var komið niður hjá
Fagradal á Skarðsströnd.8 Trúlega hefur verið allfjölfarið þessa leið frá
Skarðsströnd yfir í Sælingsdal á þjóðveldistíma, ekki síst til laugarinnar.
Víkjum að býlinu Sælingsdalstungu sem er í Sælingsdal, gegnt
Laugum. Sum býli voru á krossgötum, fólk sótti að úr fjórum áttum.
Í Tungu voru mikilvæg vegamót, fólk gat sótt til staðarins úr þremur
áttum. Þangað lágu leiðir að vestan, norðan og sunnan. Leiðin að
vestan lá úr Saurbæ, um Staðarhól og bæinn Hvammsdal og þaðan
yfir hina stuttu Sælingsdalsheiði að bænum Sælingsdal, og var um
4½ km milli þessara síðastnefndu bæja.9 Hins vegar var komið að
norðan, farinn vegur um Svínadal, þar sem þjóðleið er á okkar tíð.
Hér fóru ekki aðeins Saurbæingar heldur fólk sem kom lengra að, um
Steinadalsheiði úr Kollafirði eða Tröllatunguheiði úr Steingrímsfirði.
8 Árni Björnsson, Í Dali vestur, 160.
9 Dalasýsla. Sýslu og sóknalýsingar , 179. Líka mátti fara leið um Traðardal en var ekki
hin eiginlega þjóðleið, sbr. Árni Björnsson, Í Dali vestur, 62, 160-61.