Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 57
BREIÐFIRÐINGUR 57SAGNFRÆÐINGAR SKRIFA UM BREIÐAFJÖRÐ
Bolli Þorleiksson og kona hans Guðrún Ósvífursdóttir, að sögn Laxdælu
(ÍF V, 159). Þegar Bolli var fallinn skipti Guðrún á bústað við Snorra
goða (d. 1031) sem settist að í Tungu. Það skal hafa verið árið 1008 og
síðan á Snorri að hafa haft afskipti af óspektarmönnum í Bitru og þar
um slóðir enda lá Tunga ekki illa við ferðum þangað. Ýmist segir að
sonur Snorra, Snorri Snorrason, eða tengdasonur Snorra, Bolli sonur
Guðrúnar og Bolla Þorleikssonar, hafi tekið við búi í Tungu. Er getið til
að hvorttveggja kunni að vera rétt, Bolli búið þar meðan Snorri yngri
var enn ungur að árum (ÍF V, 226; IV, 183). Síðan er vart neitt vitað um
bændur í Tungu fyrr en í deilum Þorgils og Hafliða um 1120; þá bjó á
bænum frændi Hafliða og bandamaður, Már prestur Þormóðsson. Þegar
Hafliði skyldi heyja féránsdóm á heimili Þorgils, á Staðarhóli, reið hann
að norðan með 120 manns og gisti í Tungu. Þar voru fyrir 40 menn
sem Már hafði safnað. Hafliði fór Sælingsdalsheiði yfir í Saurbæinn
en Þorgilsi tókst að hindra för hans, áður en hann næði alla leið að
Staðarhóli (Stu I, 36-7).11
Þorgilsi hefur ekki verið nein þökk í búsetu Más í Tungu. Um 1148,
skömmu áður en Þorgils gekk í klaustur (d. 1151), voru synir hans
komnir á legg og bjó Oddi (d. 1151) að Skarði á Skarðsströnd en Einar
í Sælingsdalstungu og hefur þótt vel fyrir þeim séð. Þetta er til marks
um veldi Þorgils, hann hafði betur en keppinautar á Skarði og í Tungu.
Tunga skipti máli í samkeppni Hvamm-Sturlu og Einars Þorgilssonar
á Staðarhóli um völd og áhrif. Böðvar Barkarson hét stórbóndi einn
og var tengdasonur Þorgils á Staðarhóli. Sturla fékk hann til að selja
sér Hvamm og má líta svo á að Sturla hafi gert tilboð sem Böðvar
gat ekki hafnað. Þetta var um 1150 og Böðvar settist þá að í Tungu
enda var Einar Þorgilsson farinn þaðan og sat á Staðarhóli. En um
1160 var Böðvar kominn á Reykhóla og Sturla fékk Einari Helgasyni
Tungu til ábúðar. Hann var sonur Ingibjargar, eiginkonu Sturlu, af fyrra
hjónabandi hennar, og náinn bandamaður Sturlu, oft nefndur Einar
Ingibjargarson. Þetta er einn af vottum þess að Sturlu gekk vel í átökum
við Einar Þorgilsson.12
11 Árni Björnsson, Í Dali vestur, 162.
12 Stu I, 13, 28, 36, 66, 68, 76.