Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 60
BREIÐFIRÐINGUR60
Sturla sagnaritari ríkti þannig um skeið sem goði í Hvammssveit, á
báðum ströndum (Skarðsströnd og Fellsströnd) og í Saurbæ og hafði
vart minni völd á þessum slóðum en faðir hans, Þórður Sturluson hafði
haft. En ólíkt Þórði tókst Sturlu ekki að mynda sterkt veldi við allan
Breiðafjörð.
Auðsætt er að Sturla hefur haft stoð af nábýli við tengdamóður sína.
Þegar óvinir sóttu að honum árið 1243 segir að hann hafi verið í Tungu,
eins og hann hafi búið þar en það þarf þó ekki að vera. Sturla flýði
þá undan skagfirskum óvinum vestur í Saurbæ en þeir leituðu hans í
kirkjunni í Tungu (Stu II, 30). Aftur hugðust skagfirskir óvinir Sturlu
valda honum miska 1244 en hann flýði út í eyjar. Skagfirðingarnir komu
við í Tungu en Helga slapp nauðuglega í kirkju með Snorra, barnungan
son þeirra Sturlu. Aðkomumenn særðu mann í Tungu og rændu þar
til 20 hundraða og leituðu Sturlu í kirkjunni þar og líka í kirkjunni á
Staðarhóli, árangurslaust (Stu II, 46, 48, 288). Tunga hefur verið þeim
Sturlu og Helgu sem annað heimili.
Árið 1253 skyldi Ingibjörg, dóttir Helgu og Sturlu, ganga í hjónaband
og sat þá Jóreiður enn í Tungu og fékk Ingibjörgu Sælingsdal í heim-
anfylgju, 30 hundraða jörð, innar í Sælingsdal en Tunga, og tíu hundruð
að auki. Jóreiður hefur því væntanlega verið sæmilega efnuð og kann
enn að hafa lifað alllengi en af því ganga ekki sögur.
Hugsanlegt er að Snorri Sturluson, sonur Helgu og Sturlu, hafi eignast
Sælingsdalstungu því að á bænum bjó Ásgrímur Snorrason 1337 en
virðist líka hafa verið á Staðarfelli (DI II, 716-17, sbr. 637) og kann að
hafa verið sonur Snorra. Hann mun því hafa átt nokkuð undir sér og eins
Ketill Ásgrímsson sem bjó í Sælingsdalstungu síðar á sömu öld, vísast
sonur Ásgríms Snorrasonar (DI III, 728-9, sbr. nm.).
Niðurlag
Sælingsdalstunga hefur verið mikilvæg jörð í pólitískum átökum í
Dölum á þjóðveldistíma. Hún féll þó í skuggann af öðrum jörðum,
einkum Staðarhóli, sem var miklu stærri jörð, en líka Hvammi sem mun
hafa verið mun stærri þótt ókunnugt sé um matið. En hér hefur verið
dregið fram að það skipti höfðingja á þessum tveimur jörðum allmiklu