Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 58
BREIÐFIRÐINGUR58
Býli, leiðir og völd á þjóðveldistíma
Það hefur auðsæilega skipt máli fyrir höfðingja í valdabaráttu í Dölum
hverjir sátu í Tungu. Óheppilegt var a.m.k. fyrir goða í Hvammi eða
á Staðarhóli, byggi óvinur í Tungu. Ef höfðingi í valdabaráttu sat
ekki sjálfur í Tungu varð hann að tryggja eftir bestu getu að þar sæti
bandamaður. Þetta tryggði Þorgils Oddason fyrst en síðan Hvamm-
Sturla. Mikilvægt var að Tunga lá á vegamótum og skammt frá lauginni
að Laugum. Í Tungu var líka gott undir bú, þess vegna góður efnahagur
og mögulegt að veita ferðamönnum fyrirgreiðslu. Sá sem sat í Tungu
gat fylgst með ferðum manna og aflað frétta. Í pólitískri samkeppni var
nauðsynlegt að frétta sem fyrst af vígum og barsmíðum eða liðssafnaði
og bregðast við. Treyst var á að einarðir bandamenn létu mikilvægar
fréttir berast. Höfðingjar á býlum eins og Tungu áttu þess kost að sýna
örlæti sitt; þeir gátu laðað að fólk sem var á ferð og reynt að tryggja að
orð færi af þeim fyrir rausn og myndarskap.
Tunga virðist hafa skipt miklu máli í valdabaráttu á tímum Þorgils
Oddasonar, Sturlu í Hvammi og Einars Þorgilssonar. Fyrir sunnan
Tungu er þekkt býli, Ásgarður, en var minni jörð en Tunga (40 eða 50
h á móti 60 h) og kirkjan þar aðeins annexía. Sagt er að Snorri goði
hafi reist kirkju fyrstur í Tungu (ÍF IV, 183, 186), þar var prestskyld og
skyldi presturinn þjóna kirkjunni í Ásgarði líka. Tíund skyldi greidd
af sex bæjum til kirkju í Tungu árið 1327 og var það sjálfsagt gömul
skipan. Þangað lágu líka eyristollar af sömu sex bæjum (DI II, 633-4).
Ásgarður var við vegamót og í þjóðbraut, eins og Tunga, og í
Ásgarði gisti Einar Þorgilsson jafnan hjá Erlendi presti Hallasyni sem
var þingmaður hans og gildur bóndi. Sturla í Hvammi lagði óþykkt
á Erlend, bar kala til hans, og veittu þeir Sveinn sonur hans tveimur
mönnum Erlends prests áverka við laugina að Laugum en prestur sat
þá í lauginni. Sættir gengu treglega en tókust þó og Erlendur brá búi
(Stu I, 79, 82-3). Bjarni hét maður Steinsson og átti heima í Ásgarði,
þegar Erlendur bjó ekki þar, og studdi Einar Þorgilsson og veitti honum
og bandamönnum hans gistingu. Þetta líkaði Sturlu illa og kvað annan