Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 155
BREIÐFIRÐINGUR 155
raflögnum. Fórum við, ég og mágur minn Guðmundur Rögnvaldsson,
í leiðangur vestur og komum fyrst að Kvennabrekku og buðum
fram vinnu okkar. Séra Eggert Ólafsson tók okkur vel en vildi ekki
verða fyrstur til þess að semja við okkur. Við fórum þá að næsta bæ,
Kirkjuskógi, og náðum strax samningi við Ágúst bónda þar og þar
næst sömdum við við Huldu bónda í Miðskógi; síðan sömdum við á
Kringlu, og þá við séra Eggert og loks Kolsstaði og Breiðabólsstað. Við
lögðum líka ljósalagnir í samkomuhúsið við skeiðvöll Dalamanna. Þá
lögðum við leið okkar vestur fyrir Gilsfjörð og sömdum þar við bændur
að Ingunnarstöðum, Tindum, Kletti, Hólum og Kambi. Við lukum
sumrinu saman á bæjum austanvert við Hrútafjörð og mágur minn hélt
til framhaldsnáms í Vélskólanum í Reykjavík.
Þú hlýtur að geta sungið
Loks vil ég segja frá sjómennsku minni á Breiðafirði og því sem
fylgdi því ævintýri. Ég hafði þegar ég flutti í Borgarnes eftir vinnuna
í sveitunum vestra komist í það að reka rafmagnsverkstæði með tvo
lærlinga sem gekk afar vel. Vitandi af Ágústi Péturssyni, afabróður
mínum, sem þá var hafnarstjóri í Stykkishólmi, hringdi ég í frænda og
bað hann að reyna að koma mér á skak þótt ekki væri nema einn túr. Tók
hann því vel. Skömmu síðar hringdi hann og sagðist hafa pláss fyrir mig
hjá Kristjáni í Ási á Glað en það væri einn af dekkbátunum sem DAS
(Dvalarheimili aldraðra sjómanna) hafði látið smíða. „Þú ættir að koma
í kvöld (föstudag) og fara út með honum á morgun.“ Ég lét ekki á mér
standa og ók nærri í loftinu vestur. Daginn eftir sagði Gústi mér að ekki
viðraði í róður, en bætti við: ,,Við erum að fara út í Flatey á Baldri og þú
kemur bara með“. Ég var vissulega til í það. Þegar til Flateyjar kom brá
svo við að líkkista var hífð í land. Ég var kominn í útför. Frá skipi þurfti
að bera kistuna upp í kirkju og skömmu eftir að lagt var af stað vék
Gústi sér að mér og sagði: ,,Þú ættir nú að halda undir kistuna smáspöl.”
Ég lét ekki á mér standa og hélt á henni alla leið upp að kirkjunni. Það
var um einn og hálfur klukkutími fram að útförinni svo Gústi sagði;
,,Við förum bara heim til Sveinbjörns Péturssonar, bróður Ágústs og
Önnu Björnsdóttur konu hans.” Við gerðum það og á tilsettum tíma