Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 69
BREIÐFIRÐINGUR 69SAGNFRÆÐINGAR SK IFA UM BREIÐAFJÖRÐ
Orðræðugreining á kynjaorðræðu um sjómenn, sjókonur og vélvæð-
ingu var viðfang síðasta hluta rannsóknarinnar. Sjómannablaðið Ægir
var þar í forgrunni ásamt fleiri heimildum sem snúa að sjávarútvegi.
Umræða um vélvæðingu var greind í þeim tilgangi að sýna fram á
þær hugmyndir sem samtímafólk hafði um framfarir og vélvæðingu
og framfarir í sjávarútvegi. Þær framfarir sem áttu sér stað í upphafi
tuttugustu aldar voru mörgum kærkomin nýjung, áttu að auðvelda
fiskveiðar og færa aukinn hagnað. Breytingarnar urðu ekki skilvirkar
á einni nóttu og ýmis vandamál skutu upp kollinum. Í ljós kom að það
var vandkvæðum háð að vélvæða greinina, sumir voru of fljótir á sér og
höfðu ekki kunnáttu til að umgangast vélar. Skrifaðar voru greinar til að
sporna við klaufaskap og fljótfærni útgerðar- og sjófólks í rit sem ætluð
voru stéttinni. Þetta var einnig gert til að samræma vinnureglur og gera
atvinnugreinar sjálfstæðar svo að líkur ykjust á sjálfstæði landsins í
stjórnarháttum. Þeir einstaklingar sem tileinkuðu sér nýjungarnar vildu
skjótan gróða en huguðu oft ekki að þeim hættum sem vankunnátta og
hugsunarleysi gátu haft í för með sér.28
Sjómennska og karlmennska hafa ávallt tengst nokkuð styrkum
böndum; þetta má sjá víða í heimildum. Þegar rýnt var í orðræðu
um sjómennsku er auðvelt að færa rök fyrir notkun minni á orðinu
sjókvenska í rannsókninni, til þess að sýna fram á að um karlastarf var
að ræða á fyrri hluta 20. aldar. Sjálfsmynd sjómanna mótaðist meðvitað
eða ómeðvitað með þeirri orðræðu sem birtist í ritum tengdu stéttinni,
ljóst er að kyngervi þeirra var karllægt og að sjómenn voru ekki konur
í þessum skrifum. Þetta sjáum við enn í dag, hugtakið sjómennska er
iðulega eignað karlmönnum og virðist sjómennska oft á tíðum tákna
„alvöru“ karlmennsku þrátt fyrir að konur hafi stundað sjó á Breiðafirði
í aldanna rás og geri það víða í dag. Konur sættu þöggun í opinberri
orðræðu innan sjávarútvegs eða voru beinlínis útskúfaðar þaðan. Við
28 Sjá m.a. „Fiskveiðar Íslendinga og framtíðarhorfurnar“, bls. 9–11 (Ægir, 01.08.1906),
Nói: „Vitnisburðabækur fyrir fiskimenn á þilskipum“, bls. 12–14 (Ægir, 01.08.1906), Jón
Hermannsson: „Reglugjörð fyrir Fiskveiðisjóð Íslands“, bls. 21–23 (Ægir, 01.09.1906),
Edilon Grímsson: „Um sjávarútveg í Friðrikshöfn með tilliti til sjávarútvegs í Reykjavík“,
bls. 70–71 (Ægir, 01.01.1907) og fleiri. Sjá einnig Þórunn María Örnólfsdóttir: Hið
breiðfirska lag, bls. 48–52.