Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 97
BREIÐFIRÐINGUR 97
voru aðeins stundaðar.16 Sjómenn og vinnumenn úr Eyrarsveit héldu
því á vetrarvertíðir í Ólafsvík og undir Jökul. Fyrir vikið færðist
hluti af mannlífinu frá Eyrarsveitinni yfir til verstöðvanna. Vetrarafli
Eyrarsveitunga rann því að hluta til kaupmannsins í Ólafsvík sem seldi
hann síðan á innlendum eða erlendum markaði. Þessar tekjur runnu því
ekki til Grundarfjarðar. Kaupmenn í Grundarfirði voru misfljótir að átta
sig á þessum ókosti. Ernst M. Heidemann, kaupmaður í Grundarfirði,
sá kosti þess að reka einnig verslun í Ólafsvík. Hann skynjaði fljótt
að staðsetning Grundarfjarðar sem verslunarstaðar var ekki góð því
eitt af því fyrsta sem hann gerði var að reisa móttöku- og verkunarhús
fyrir fiskafla á Rifi og í Keflavík á Snæfellsnesi. Með því tryggði hann
sér að geta fyrstur kaupmanna tekið á móti nýveiddum fiski. Tiltækið
fór illa í kaupmennina í Ólafsvík enda kærðu þeir Heidemann til Vibe
amtmanns. Vibe kvaðst ekkert geta aðhafst og Heidemann var frjálst
að stunda fiskverkunina.17 Grundarfjörður var því ekki aðeins fámennt
verslunarumdæmi heldur einnig illa staðsettur fyrir verslun.
Kaupsvæðin, eða útliggjarastaðir, sem fylgdu Grundarfirði voru Ó l afs-
ví k , Stykkishólmur, Búðir, Arnarstapi, Flatey og Straumfjörður.18 Kaup-
staðarumdæmi Grundarfjarðar taldi 7.438 íbúa árið 179119 og staðurinn
var höfuðverslunarstaður Vesturlands. Þrátt fyrir það gekk illa að selja
eignir konungsverslunarinnar í Grundarfirði. Það gefur vísbendingar
um að kaupmenn höfðu ekki sömu trú og embættismennirnir á gæðum
staðarins. Stjórn konungsverslunarinnar síðari áleit höfnina t.d. ekki
betri en svo að hún ætti að vera úthöfn frá Ólafsvík.20 Það má því draga
þá ályktun að eftir að Grundarfjörður fékk kaupstaðarréttindi hafi komið
16 Jens Hermannsson. Breiðfirskir sjómenn, I. bindi, önnur útgáfa. Skuggsjá, [Hafnar-
fjörður], 1976, bls. 219.
17 Ásgeir Guðmundsson: „Verslunin í Grundarfirði“, bls. 276–277.
18 Gísli Ágúst Gunnlaugsson: Saga Ólafsvíkur, I. bindi. Fram um 1911. Hörpuútgáfan,
Akranes, 1987, bls. 91-92; Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir: Sveitasamfélagið lifði.
Fólksfjölda- og íbúaþróun í Eyrarsveit á 19. öld. [Háskóli Íslands], Reykjavík, 2011, bls.
5; Ásgeir Guðmundsson: „Verslunin við Grundarfjörð“, bls. 245. Síðar voru Arnarstapi
og Straumfjörður teknir út úr verslunarumdæminu.
19 Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir: Sveitasamfélagið lifði, bls. 5; Ásgeir Guðmundsson:
„Verslunin við Grundarfjörð“, bls. 245.
20 Sigfús Haukur Andrésson: Verzlunarsaga Íslands, II. bindi, bls. 510.
SAGNFRÆÐINGAR SKRIFA UM BREIÐAFJÖRÐ