Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 169
BREIÐFIRÐINGUR 169
Vísuna lærði ég nokkuð öðruvísi í bernsku minni og einnig svar við
henni:
Verkalaunin verða létt
voru eyjalömbin.
ullarrifin grönn og grett
gróin saman vömbin.
Það sem greinir ofangreindar gerðir vísunnar að er einkum það að
talað er um eyjalömbin og er það örugglega upphaflegra.
Höfundur vísunnar var Sigríður Sigurðardóttir, sem var húsfreyja
á Harastöðum á Fellsströnd til dauðadags 3. apríl 1966. Sigríður
var kaupakona eða vinnukona hjá bóndanum á Staðarfelli, en þar
bjó þá Þorsteinn Þorsteinsson, sýslumaður og síðar alþingismaður
Dalasýslu, sem er mörgum enn kunnur fyrir stórt og frægt bókasafn.
Að verkalaunum fékk Sigríður að setja lömb í eyjar, en ekki virðast þau
hafa verið í góðri beit. Þorsteinn svaraði með eftirfarandi vísu:
Þeirri kvinnu það gefst svar
þó að grenntust lömbin.
Hún í fullum holdum var,
um helming þandist vömbin.
Sigríður var ófrísk að elstu dóttur sinni, Guðlaugu, sem síðar
var lengi húsfreyja á Emmubergi á Skógarströnd, en hún fæddist 1.
nóvember 1926, svo að vísur þessar ættu samkvæmt því að hafa verið
ortar það ár. Þetta leiddi hugann að orðinu bötnunarbeit, sem var oft haft
um það þegar fé var sett í eyjar á haustin. Orðið er ekki algengt og ég
man að Tryggvi Sveinbjörnsson, sem var bókbindari í Landsbókasafni,
þekkti orðið vel, en hann var ættaður úr Flatey. Við spurðum
Hallfríði Baldursdóttur Vilhelmssonar lengi prófasts í Vatnsfirði við
Ísafjarðardjúp um bötnunarbeitina, en hún þekkti hana ekki, en eyjabeit
hafði stundum verið viðhöfð í Vatnsfirði. Ég held að orðið hafi verið
mjög staðbundið og verða nú raktar nokkrar heimildir um það og aðra
mynd þess, bötunarbeit. Fyrst er rétt að geta hér dæmis um bötnunarbeit