Breiðfirðingur - 01.05.2015, Blaðsíða 45
BREIÐFIRÐINGUR 45SAGNFRÆÐINGAR SKRIFA UM BREIÐAFJÖRÐ
frænda síns, Ingimundar Einarssonar á Reykhólum, þannig að metorð
hans voru komin úr móðurætt.24
Hér hefur verið farið yfir vensl helstu forystumanna í Breiðafirði
og þá þætti úr sögu þeirra sem hafa að öllum líkindum verið kunnir
Ara fróða. Af þessari yfirferð má sjá að náin vensl hafa verið á milli
þessara fjölskyldna frá fyrstu tíð og Ari var meira eða minna tengdur
þeim öllum. Við vitum hins vegar ekki hvort þessi mynd er í samræmi
við „sögulegan veruleika“ 9. og 10. aldar. Hún er veruleikinn eins og
sagnaritarar 12. og 13. aldar skynjuðu hann og miðluðu til síðari kyn-
slóða. Þar er hlutur Ara ekki sístur.
Áhrif Sturlunga á söguvitund okkar
Faðir Hvamm-Sturlu, Þórður Gilsson, bjó á Staðarfelli á Fellsströnd
og var samtíðarmaður Ara fróða. Þórður tók við goðorði Snorrunga af
Ljóti Mánasyni, sonarsyni Snorra goða. Miðað við það hversu marga
göfuga afkomendur Snorri goði hlýtur að hafa átt er sérkennilegt að
Þórður skuli hafa hafist til slíkrar virðingar, en á því eigum við engar
skýringar. Hitt má ráða af varðveittum heimildum að Þórður hafi verið
hinn fyrsti meðal langfeðga sem hófst til slíkra mannvirðinga.25
Forfaðir Þórðar í beinan karllegg var landnámsmaðurinn Þorbjörn
loki í Djúpafirði. Samkvæmt Landnámu var sonur hans Þorgils, faðir
Kolls, föður Þorgils, föður Jörundar, föður Snorra. Þetta eru alls sex
ættliðir og miðað við hefðbundinn útreikning ættfræðinga ættu þá að
vera liðin um 200 ár frá landnámi. Ekki er þó loku fyrir það skotið að
þessi ættrakning hafi ruglast á einhverju skeiði. Með Snorra Jörundarsyni
erum við loksins komin að þekktum manni í þessu langfeðgatali, en
hann var sennilega fæddur snemma á 11. öld. Sonur hans var Gils, faðir
Þórðar goðorðsmanns, föður Hvamm-Sturlu. Með fjórða ættliðnum,
Þorgilsi Kollssyni, mun þessi fjölskylda hafa tengst Reyknesingum, en
Þorgils átti Otkötlu Jörundardóttur, Atlasonar hins rauða.26
24 Sturlunga saga I, bls. 23.
25 Sturlunga saga I, bls. 52–64.
26 Íslenzk fornrit I, bls. 163, 165–66.