Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Síða 6
H a n n e s P é t u r s s o n
6 TMM 2010 · 3
Sólin, hún vakir. Í svefni er Garðarsfrón
með Suðurlandsjökla til höfða – í útrænublævi.
Við hamrabríkina loga ósar og lón.
Litofnar breiður falla að svæflanna snævi.
Rúmtjöldin, víð og blá, eru gulli borin;
þau blakta vart yfir hljóðum, dreymandi sævi.
En móðirin brosir. Allt sveipar hún einni sjón
og signir barnið sitt: Ísland er fagurt á vorin!
Fimmta, sjötta og sjöunda erindi geyma hugrenningar andspænis
fegurð vornæturinnar, spunnar úr þeim lífstrega, þeirri sáru sjálfsrýni
sem oftlega bregður fyrir í skáldskap Einars Benediktssonar þegar líða
tekur á söguríkan æviferil hans. Sjötta erindið hljóðar svo:
Fagnandi vordýrð við Bláskógafjallsins brjóst,
sem bergmálar mér í hjarta, liðin og fjarri!
Draumlandið mitt í norðri, svo næturljóst,
með niðandi heiðablæinn í stráum og kjarri!
Hvað varð um það allt, sem ég ævilangt trega og syrgi?
Ókveðið ljóð um einn bjargstíg, sem lá mér nærri.
Og hvað var það allt, sem af árum og forlögum bjóst?
– Andvarp, sem þaggast; tár, sem ég fel og byrgi.
Eftir sjöunda erindi gerir skáldið skil í kvæðinu með stuttstrikum og
lýkur söng sínum á þessum orðum:
– Þú hvílir í töfrum, mærin við Norðurmar;
því mæna þín fjöll undir sólu með skyggðum brúnum.
Nær rennur af hafi hið dýra, farmþunga far
með frelsandi eggjunarrödd að sofandi túnum?
– Handan við jökla og höf lyftist gullni sprotinn
til höggs móti forneskjudraugunum töturbúnum.
Nú finnst mér þín vornótt, Ísland, sem skjálfandi skar
mót skínandi degi. – Álög þín verða brotin.
Niðurlagserindið bendir til þess að skáldinu hafi þótt brýnt að ljúka
máli sínu á þeirri boðun sem það hafði fylgt fram lengi. Lofsöngurinn
um vornæturdýrð Íslands stóðst ekki að hyggju þess einn sér, án nýrrar
athafnastefnu hafði hann engan tilgang, enga réttlætingu.