Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Blaðsíða 47
B e r í s l e n s k a þ j ó ð i n á b y r g ð i n a á H r u n i n u ?
TMM 2010 · 3 47
Ris og fall nýfrjálshyggjunnar
Vandamálin sem fyrstu nýfrjálshyggjumennirnir gagnrýndu voru raun
veruleg. Ísland hafði lengi verið fast í viðjum spillts flokkakerfis. Því
er ekki að undra að stefnan hafi virkað heillandi á marga Íslendinga.
Nýfrjálshyggjan átti að vera patentlausn á öllum þeim vandamálum
sem fylgdu íslensku fyrirgreiðslupólitíkinni. Vinstrimenn höfðu enga
sambærilega lausn. Í staðinn voru þeir settir í þá stöðu að þurfa að
verja kerfi sem þeir höfðu raunverulega aldrei trúað á til að byrja með.
Byltingunni hafði verið stolið af þeim, því er ekki að undra að þeir hafi
verið hálf áttavilltir. Þetta var ein ástæða þess að flestar gagnrýnisraddir
hljóðnuðu hægt og rólega.
Kjarni hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar felst í túlkun (og stundum
rangtúlkun) á hugmyndum Adams Smith. Hannes Hólmsteinn
Gissurarson er einn helsti (mis)túlkandi hans hérlendis og segir:
Markaðsskipulagið varð til af sjálfu sér, það er sjálfsprottið. Smith átti að
sjálfsögðu við það, þegar hann ræddi um „ósýnilegu höndina,“ sem ýmsir hafa
misskilið. Hann átti við það, að regla hefði komist á, án þess að nokkur hefði
komið henni á.12
Ein af grunnhugmyndum nýfrjálshyggjunnar var sú að allt eftirlit og
regluverk væri óþarft, þar sem markaðurinn stillti hagkerfið sjálfkrafa
af. Það var einmitt þetta eftirlitsleysi sem síðar reyndist svo dýrkeypt, en
var stefna nýfrjálshyggjumanna frá upphafi.
Segja má að hugmyndin hafi hrunið með afgerandi hætti haustið
2008 í helsta vígi hennar, Bandaríkjunum. George W. Bush, sem oft var
kenndur við nýfrjálshyggjuna, neitaði þá að koma Lehman Brothers
bankanum til bjargar. Hann taldi að slíkt væri ekki í verkahring ríkisins
og að markaðurinn ætti að sjá um þetta.13 Markaðnum mistókst hins
vegar að stilla sig af, með þeim afleiðingum að ríkið þurfti á endanum að
bjarga fjölda annarra banka og var kostnaðurinn mun meiri heldur en
ef ríkið hefði bjargað Lehman. Hið sama gerðist á Íslandi þegar Glitnir
féll, markaðurinn stillti sig ekki af heldur þurfti stórfelld ríkisafskipti
þegar bankarnir hrundu. Ólíkt því sem gerðist í Bandaríkjunum voru
peningar hinsvegar ekki til í björgunaraðgerðir,14 og því varð hér hrun
í stað niðursveiflu.