Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Side 7
Í s h j a r t a
TMM 2010 · 3 7
3.
Niðurlag Bláskógavegar hlýtur að varpa skuggum á lofgjörð fyrstu
erindanna í augum allra þeirra sem unna geislandi fegurð náttúrunnar
skilmálalaust, því snögglega segir að vornóttin íslenzka sé hégóminn
einber, nytsemdarlaus, aðeins skjálfandi skar í samanburði við ljóma
dagsins sem rísa muni þegar sprotinn gullni hefur verið reiddur til
höggs gegn landlægum forneskjudraugum kyrrstöðu og vesældar.
„Gullni sprotinn“, tákn fjár til framkvæmda, auðmagns handan um
höf, er gamalt stef í skáldskap Einars Benediktssonar. Í hinu merka
stefnuskrárkvæði hans, Aldamótum, kallast sá sproti „lykill hins gullna
gjalds“:
Oss vantar hér lykil hins gullna gjalds
að græða upp landið frá hafi til fjalls.
Hann opnar oss hliðin til heiðanna’, á miðin,
í honum býr kjarni þess jarðneska valds.
Þann lykil skal Ísland á öldinni finna, –
fá afl þeirra hluta’, er skal vinna.
Og í Haugaeldi, kvæði um Borgarfjarðarhérað, frumprentuðu árið 1900,
heitir þessi lykill „verðsins veldissproti“.
En enda þótt niðurlagserindi Bláskógavegar sé greinilegt viðhengi
fljótt á litið liggur tiltekinn þráður þaðan fram í kvæðið. Í næstfyrsta
erindi segir:
Ægir er hljóður. Hann staldrar við stormanna grind
og starir í gaupn, meðan tindarnir árblæjum skarta.
Hann veit, móti suðri snýr Vatnafrerans mynd,
volduga líkneskið Fróns, – eins og stórskorið hjarta.
Þar bíða öflin síns upprisudags í gröfum. –
Öræfin hlusta á lífsteikn marmarans bjarta.
En ísneggið mikla er óháð sólu og vind, –
þess æðar slá jafnt og þungt út að tvennum höfum. –
Hér bragar hin frána skáldsjón Einars Benediktssonar, sú stórbrotna
myndasmíði sem hann hafði á valdi sínu. En erindið ber því einnig
vitni að honum varð þegar í miðjum lofsöng um vornæturskrúð Íslands
hugsað til sprotans gullna, fjármagns sem reisa myndi til lífs upp úr
dauðans gröfum orku fljótanna miklu undan Vatnajökli, Vatnafrer
anum. Meðal veraldlegra áhugamála Einars Benediktssonar var beizlun
fallvatna „konungshugsjónin“ segir Sigurður Nordal í ritgerð um