Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Page 14
14 TMM 2010 · 3
Gunnar Þór Bjarnason
Jón Sigurðsson snýr aftur
Hrunið breytti ekki öllu. Jón Sigurðsson, leiðtogi og persónugervingur
sjálfstæðisbaráttunnar, er enn þjóðhetja Íslendinga. Og það sem meira
er, engu er líkara en að hann hafi allur færst í aukana í kreppunni. Hans
hefur gætt meira í þjóðmálaumræðunni á síðustu misserum en mörg
ár, kannski áratugi, þar á undan. Það er jafnvel ekki laust við að þjóðin
sýni þjóðhátíðardeginum ögn meiri áhuga en áður. Að minnsta kosti sá
sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason ástæðu til að spyrja hvort ef til vill
væri kominn tími til „að uppgötva daginn á nýjan leik“ og hvort ekki
væri unnt að ljá honum „inntak og merkingu“.1 Jón hefur líka verið
fastagestur í ræðum stjórnmálamanna eftir hrun og í blöðum hafa birst
pólitískar auglýsingar með myndum af honum. Hvað veldur þessu?
Hvernig er þessi Jón Sigurðsson sem nú lætur enn á ný til sín taka?
Hvernig hafa Íslendingar litið á Jón í gegnum tíðina? Og hvert er gildi
hans nú á dögum? Er við hæfi að nýta sér orð hans og viðhorf í deilu
málum samtímans?
Hverjir eiga Jón Sigurðsson?
Í skarpri og skemmtilegri grein sem Sverrir Jakobsson sagnfræðingur
skrifaði í TMM fyrir nokkrum árum veltir hann því fyrir sér hverjir eigi
Jón Sigurðsson.2 Sverrir bendir á að menn hafi jafnan tekið það eitt úr
málflutningi forseta sem þeim henti enda geti hver stjórnmálahreyfing
í raun „fundið eitthvað við sitt hæfi“ í skrifum hans. Sverrir spyr hvert
sé gildi Jóns fyrir samtímann og fjallar um frjálshyggjumanninn Jón
Sigurðsson, samvinnumanninn, vinstrimanninn, alþýðuhetjuna og loks
byltingarsinnann. Jón hafi verið þetta allt í senn. Greinin var skrifuð
árið 2003 og kemst Sverrir að þeirri niðurstöðu að þá hafi verið í tísku
að líta á Jón sem „frjálslyndan alþjóðasinna“. Þorvaldur Gylfason hafi
til að mynda haldið því fram að forseti hefði að öllum líkindum verið