Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Blaðsíða 43
A n d l á t
TMM 2010 · 3 43
blíðu og hrekklausu sál, með meinfýsnum ofanígjöfum sínum um
tungutak fólksins. Hún var svo meinfýsin og svo illgjörn og svo kvalin
af öfund að hún kom ekki heim til sona sinna án þess að fremja þar
einhver heimilisspjöll, skilja eftir sig brotinn vasa á bakvið stól eða rífa
hnapp af sófapúða – síðan hringdi hún í syni sína og vakti athygli þeirra
á einhverju axarskafti tengdadætranna sem hún hefði komið auga á,
hún hefði séð kusk í horni, hráka undir borði.
Með öðrum orðum var hún ekki elskuleg tengdamóðir.
En þetta var kurteis og siðmenntuð fjölskylda sem ætíð kappkostaði
að halda friðinn og ummæli föðurins þóttu fara yfir strikið.
„Svona segir maður ekki, pabbi minn,“ sagði annar sonurinn.
„Hvað?“ sagði sá gamli. „Af hverju viljiði ekki segja elskuleg tengda
móðir?“
Vinkonu minni leist ekki á blikuna því meðan kerlingarálkan var á lífi
hafði tengdafaðirinn verið til friðs. Hún hafði verið að vona að hann og
synirnir fengju nú loksins um frjálst höfuð strokið. Í raun var hún fegin
að hún var dauð; hún hafði íhugað að eitra fyrir henni, bæði í gamni
og alvöru. Nú var eins og pabbinn ætlaði að erfa andstyggilegheitin úr
þeirri gömlu.
„Pabbi,“ sagði hinn sonurinn í umvöndunartón.
„Ég skil bara ekki hvers vegna má ekki segja elskuleg tengdamóðir
mín,“ sagði faðirinn sífrandi kvörtunarröddu, líkt og hann væri slomp
aður.
Hvað vakti eiginlega fyrir honum? Hvað hafði komið yfir hann?
„Orðaröðin er bara óeðlileg,“ tjáði vinkona mín mér seinna að hún
hefði sagt. Hún vissi ekki hvað hann var að fara. Hún áttaði sig ekki á
þessum manni.
„Það getur vel verið – en konan mín hefði viljað hafa þetta svona,“
sagði sá gamli þá, glaðhlakkalega, eða mæðulega, hún vissi það ekki.
Þar við sat.