Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Page 77
TMM 2010 · 3 77
Sigurður Pálsson
Nokkur orð um Sigfús Daðason
Þurfum við að eiga bækur, getum við ekki bara fengið þær lánaðar?
Örugglega gætum við komist af með að fá margar bækur að láni og
skila þeim svo, sjá þær aldrei meir. En þetta á alveg örugglega ekki við
um sumar bækur. Til dæmis orðabækur og ljóðabækur. Það er að segja
ljóðabækur sem innihalda alvöru ljóð en ljóðum veraldarinnar má
skipta gróflega í tvennt: ljóð sem nægir að lesa einu sinni og hins vegar
alvöru ljóð. Fyrri hópurinn er eins og jógúrtdollur, maður borðar ekki
sama jógúrtið oftar en einu sinni. Það er síðari kategórían sem maður
verður að eiga.
Þegar ég var í námi í Frakklandi var ekki ennþá komið beint flug
til Parísar, maður fór yfirleitt gegnum Lúxemborg, margra tíma ferð í
hæggengri lest til Parísar.
Ljóðabækur Sigfúsar Daðasonar voru í farangri mínum fram og til
baka á hverju einasta ári. Sumar bækur eru þannig að það nægir ekki
að vita að maður eigi þær og fara svo bara í burtu, nei, þær verða að
fylgja manni, þær eru ferðafélagar, ævilangt. Samskiptin við þess háttar
ljóðabækur eru ferli, work in progress, verk í vinnslu.
Ljóð Sigfúsar þola mæta vel þetta langa samband, þetta eru alvöru
ljóð, einhver traustasti skáldskapur á íslensku á síðari hluta tuttugustu
aldar.
Það er gott að hafa þau handbær vegna þess að þau þola endurtekinn
lestur og framleiða stöðugt ný blæbrigði merkingar.
Sumir textar, einkum ljóð, opna aldrei allt merkingarsvið sitt alveg,
loka því heldur aldrei alveg. Þetta vegasalt opnunar og lokunar virðist
mér vera ein af mörgum hugsanlegum skilgreiningum á ljóðlist.
Ég var í MR þegar ég heillaðist af ljóðum Sigfúsar. Hafði keypt bækurnar
tvær sem þá höfðu komið út eftir hann, Ljóð 1947–1951 og Hendur og
orð. Fékk þær í fornbókaversluninni sem var á ská á móti Þrúðvangi