Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Page 78
S i g u r ð u r Pá l s s o n
78 TMM 2010 · 3
þar sem ég var í fjórða bekk, einu af mörgum húsum annars skálds og
gjörólíks, sýslunga míns Einars Benediktssonar.
Þegar ég fór að lesa fyrstu bók Sigfúsar, þá rifjaðist upp fyrir mér að
ég hafði séð eitt ljóðanna áður, nokkrum árum fyrr, þá barn að aldri. Ég
hafði fundið einn daginn hefti af tímaritinu Líf og list í bókastafla undir
borði á skrifstofu föður míns norður á Skinnastað. Þar var þetta ljóð:
Mosaþakið hraunið
hlustar á fjöllin langt í fjarska.
Hafið flugvélarnar og vindarnir
taka til starfa.
Við förum upp eftir skáhöllum sjávarfletinum
við finnum jörð undir fótum okkar
rigninguna slá andlit okkar
við finnum nýja aðferð til að lifa ennþá –
rísandi sól
(annan dag
djúp vötn
og firnindin).
Þessi texti vakti hjá mér undarlegt sambland þægindakenndar og
spennu. Eitthvað heillandi hafði opnast. Ný tegund ljóðtexta sem ég
hafði aldrei séð áður, ófyrirsjáanleg, óútskýrð. Ég fékk aðkenningu af
því sem sérfræðingar kalla hugljómun. Mér leið eins og ég hefði fengið
eldingu í hausinn. Þetta voru fyrstu kynni mín af nútímaljóðlist.
Þessi stund rifjaðist upp þarna í fjórða bekk í Þrúðvangi. Æ síðan
hefur mér þótt vissara að hafa ljóð Sigfúsar einhvers staðar í nágrenni
við mig.
Ég man að þessi ljóð sögðu mér eitthvað sem enginn annar texti
hafði gert fram að því. Það er í þeim einhvers konar göfugt viðhorf til
heimsins, sjónarhorn manns sem „stendur uppréttur“.
Heillandi sambland vitsmunalegrar nákvæmni og dansandi hljóms.
Ódeig leit að samhengi hlutanna. Lengi vel fannst mér menn gleyma
hinum dansandi hljómi í ljóðum Sigfúsar. Nægir að nefna miðkaflann í
Ljóðum, fyrstu bókinni, þar eru lýrískir söngvar, næstum því dægurlög.
Raunar heitir eitt ljóðið Dægurlag.