Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Síða 46
46 TMM 2013 · 2
Heimir Pálsson
Þegar Ibsen ofbauð Matta
Í Söguköflum af sjálfum mér segir Matthías Jochumsson frá fimmtu utanför
sinni árið 1885 og þar er meðal annars þessi frásögn frá Kaupmannahöfn:
Þá var Ibsen skáld þar á ferð, og tók ég nokkurn þátt í því dálæti, sem Brandesar-
vinirnir og fleiri sýndu honum. Tvisvar sinnum átti ég tal við hann og þótti mér karl
æði stirður og orðfár, en þó kurteisari maður en Björnson. Ég sagði honum, að bæði
„Brandur“ og „Þorgeir í Vík“ væri komnir á íslenzku. „Hver þýddi?“ spurði hann.
„Það gerði ég, og lagði mig allan til, því að erfiðari höfund þekki ég ekki.“ Hann
glotti, en svaraði fáu. (Sögukaflar 1959:302–304).
Heimsókn til Bjørnstjerne Bjørnson hafði Matthías lýst í sama riti bls. 206–
208 og er að vísu greinilegt að hann varð fyrir vonbrigðum og þótti skáldið
helst minna á „Magnús okkar sálarháska.“
Þórunn Erlu og Valdimarsdóttir (ÞEV), ævisöguritari Matthíasar, bendir á
að reyndar hafi Matthías ekki sagt Ibsen allan sannleikann, því að í bréfi ári
síðar, 1886, segist hann hafa hlaupið á þorranum í að þýða Brand. (Sbr. ÞEV
Upp á Sigurhæðir bls. 396–397).
Þýðingunni er samkvæmt þessu lokið 1896 en hún fæst ekki prentuð
fyrr en Þorsteinn Gíslason tekur hana tólf árum síðar sem framhaldssögu
í Íslandi árið 1898. Vafalaust er það rétt hjá ÞEV að það er til marks um
virðingu skáldsins að sama árið kom út fyrsta bindið af Sögum herlæknisins,
Skugga-Sveinn, Hinn sanni Þjóðvilji, Vesturfararnir, og þýðingin á Brandi
(ÞEV Upp á Sigurhæðir:512).
Í formála sínum að ljóðaúrvali Matthíasar í Íslenskum ritum árið 1980
benti Ólafur Briem á að sandfellishretið sem gekk yfir Rangárvelli 1892
skapaði ógnvænlegar hörmungar í grennd við Odda og heldur áfram:
Ekki er ólíklegt, að allt þetta hafi leitt huga hans [Matthíasar] að leikritinu um
Brand, sem var prestur í mjög fátæku héraði í Noregi – en var gæddur yfirmannlegu
viljaþreki. Brandur vildi ekki yfirgefa söfnuð sinn, þótt líf einkabarns hans væri í
veði. Matthías var einnig kyrr hjá söfnuði sínum, meðan hörmungarnar dundu
yfir. En þegar þeim fór að linna, hugsaði hann sér til hreyfings – og einmitt um
það leyti tekur hann Brand til þýðingar. Er sú þýðing ekki uppgjör Matthíasar sjálfs
við prestsstarf sitt í Odda og fyrirhugaða brottför? (Skáldið Matthías Jochumsson
1980:89).