Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Page 59
A f l a n d a m æ r a h é r u ð u m C l i o o g b ó k m e n n t a g y ð j a n n a
TMM 2013 · 2 59
Ég fékk smásting forðum en kunni þó vel við það þegar viðskiptadeildar
rektor útskrifaði mig og lagði út af debet og kredit: búið er að fjárfesta í
ykkur, krakkar, farið nú og látið ykkar litla ljós skína, skilið því hunangi sem
í ykkur var lagt.
Um ólíkar músur sögu og bókmennta
Það sem greinir milli sögunnar og bókmenntanna er eins og allir vita að
skáldskapurinn má og á að fantasera, matreiða bull og búa til sannleika,
en það sem sannast reynist er sagnfræðinni heilagt. Að hafa ung gengist
Clíó á hönd gerir mér ókleift að ljúga um fólk sem lifði. Svo alvarlegur er sá
sjúkdómur að vera sagnfræðingur að skáldið í mér er heft af þessum sökum.
Clíó er úr heimi strangleika og valds, úr heimi föðurins … og hún ræður.
Ég fann í Booker-prize verðlaunabók Julians Barnes 2011, The sence of
Ending – Að endingu, í þýðingu Jóns Karls Helgasonar, Tilfinningin fyrir
endi hefði ég þýtt: „Sagan er fullvissan sem verður til á krossgötum hvikuls
minnis og gloppóttra heimilda.“ Þetta er franskt og flott og eftir Patrick
Lagrange, segir í bókinni. Ég gúglaði og í ljós kom að ‚Patrick Lagrange is
not real. He‘s a fictional creation of Julian Barnes‘. Þetta leyfir músa bók-
menntanna.
Clíó greyið er þung og þvæld, alltaf að reyna að sjá landið handan við
gloppóttar heimildir, vera með á nótum landakorts raunheims, skapa úr
skýrslum með ómeðvituðum villum og úr fyllri textarifrildum sem skráðar
voru á valdi hvikuls minnis og mannlegra hagsmuna. Bókmenntagyðjurnar
reyna þetta ekki einu sinni, búa bara til franskan söguspeking og ljómandi
fleyga gullmola hans og hlæja að okkur áhangendum Clíó.
Þeim líður miklu betur, eru ekki með kæfandi skrímsli ábyrgðar á bakinu.
Þær eru með hljóðfæri; bókmenntir voru upphaflega kveðnar og sungnar, lifa
í öryggi utan hins harða veruleika, í mýkri og rólegri og kvenlegri veruleika
og þar eru sögurnar þannig að þær kitli og meiki sens. Njóta þess að ljúga,
kvikindin, en spila þó alltaf á vél hins mannlega og stilla upp endalausum
skynmyndum. Fara þar með nær raunveruleikanum og framvindu lífsins en
sagnfræðin. Við erum apar, segja þær, af hverju að taka lífið svo alvarlega?
En heimurinn er stórhættulegur þarna úti, framvindunni ræður enginn,
mannkyn er marghöfða skrímsli og enginn veit hvert næsta tíð leiðir okkur.
Einhver verður að hugsa um raunveruleikann og díla við hann. Það er inn-
byggt líffræðilega í mannveruna og lengst af lagt á karlveruna að vera á vakt
og hafa yfirlit yfir landsvæðið, stríða við nágranna og gæta hagsmuna, afla
frétta, lesa í merkin, hlaða upp sammannlegu minni, menningu sem við-
heldur valdi. Hanga í þeirri von að læra megi af reynslunni.
Sum okkar eru forrituð og alin upp þannig að við berum þunga ábyrgð og
vöndumst því einhvern veginn lítil að hafa áhyggjuskrímslið með klærnar
á hálsinum. Við erum sagnfræðingar, blaðamenn, fréttamenn, stjórn-