Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Side 74
Á r n i B e r g m a n n
74 TMM 2013 · 2
það þarf að yrkja erfiljóð, punta með kveðskap upp á áform höfðingjans
eða þá brýna alþýðu til baráttu gegn honum. Allir vilja að skáldið þjóni
þeim eða leggi þeim lið og það reynist búa yfir þeim hvítagaldri sem lyftir
ólíklegustu mönnum upp yfir þeirra takmarkanir og ömurlegt hlutskipti í
kaldranalegum heimi. Ólafur skáld er hvorki garpur né syndlaus, en hann
er engu að síður háleit hugsjón holdi klædd, gott ef ekki einskonar íslenskur
Kristur.10 Í skáldinu eiga aðrir bágt, skáldið er sá sem sampínist með þeim
niðurlægðu og fótum troðnu, gæska hans er hrein, barnslega saklaus og laus
við hyggindi sem í hag koma. Ekki að ástæðulausu hefur Ólafur verið tengdur
við frægustu tilraun sjálfs Dostojevskijs til að skapa eins og hann sjálfur kvað
að orði „sannarlega fagra sál“ – Myshkin fursta í Fávitanum. Rétt eins og
Myshkin bíður hann fullkominn ósigur í heimi hagnýtra og sérgóðra mark-
miða – en hann reynist samt með einhverjum hætti sigurvegari í eigin heimi
samlíðunar, fegurðar og skáldskapar: „Kannski átti hann eftir alt saman
þennan heim sem allir deildu um og þóttust eiga.“11 Það liggur einnig frá
honum beinn vegur til „hins líðandi þjóns“ hjá Jesaja spámanni: „Hann var
fyrirlitinn og vér mátum hann einskis … en vorar þjáningar voru það sem
hann bar … og fyrir hans benjar urðum við heilbrigðir“ (Jesaja 53).
Ólafur vill búa um sig í sinni útópíu fegurðar, kærleika og skáldskapar.
En hann á sér vin, sem er einnig skáld en hefur hafnað skáldskap til þess að
berjast fyrir samfélagi sem sé mönnum samboðið – byltingarmanninn Örn
Úlfar. Við ýmis tækifæri deila þessir vinir tveir um hugsjónir sínar, um sínar
útópíur. Ólafur Kárason heldur uppi vörnum fyrir sína fegurðarhugsjón,
fyrir skáldskap sem huggun og jafnvel „endurlausnara sálarinnar“12 – og vill
að hann sé látinn í friði fyrir kröfum um þátttöku í pólitískum sviptingum
dagsins. En vinur hans heldur því fram af einurð, að tími skáldskapar og
fegurðar komi ekki fyrr en samfélaginu hefur verið umbylt og réttlæti komið
á – og hann og fleiri heimta skýr svör af Ólafi Kárasyni: ert þú með okkur
eða á móti? Í þessari kappræðu jafningja er sem Halldór Laxness sé að deila
við sjálfan sig um það hvaða „staðleysa“ sé dýrmætari og mikilsverðari.13
Hann skrifaði greinar og reisubækur eins og Gerska ævintýrið þar sem rödd
Arnar Úlfars og hans pólitíska kröfugerð um réttlætið yfirgnæfir allan vafa.
En í skáldsögum sínum virðir Halldór alltaf þá margröddun sem veit af
„hinni hliðinni“ á hverju máli. Og í ógleymanlegu samtali vinanna tveggja
yfir rúmi deyjandi dóttur skáldsins lætur hann Ólaf bera fram þessa áleitnu
spurningu: „Hefur þér aldrei dottið í hug að það sé hægt að berjast fyrir rétt-
lætinu þángað til einginn maður stendur leingur uppi á jörðunni.“14
Það er sem Halldór Laxness með þessari spurningu sjái fyrir sína eigin
hugmyndafræðilegu framtíð. Hann mun segja skilið við hina pólitísku
staðleysutrú Arnar Úlfars – en hann mun alla ævi halda tryggð við staðleysu
sem byggir á von um háleitt og mikið hlutverk bókmenntanna í mannlegu
félagi. Og í þessu efni fetar hann með sínum hætti sömu leið og rússneskir
lesendur hans, eins og sjá má í viðtökusögu verka hans í Rússlandi. Á fyrstu