Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Síða 93
Á h r i f E S B -a ð i l d a r á í s l e n s k h e i m i l i
TMM 2013 · 2 93
upp. Úr verður svo fasteignabóla sem springur næst þegar vextir hækka.
Þetta gerðist t.d. að vissu leyti hér á Íslandi þegar erlend lán á lágum vöxtum
urðu algeng rétt fyrir hrun. Fasteignaverð og nýbyggingar ruku upp og
verðleiðréttingin hefur verið mörgum erfið. Evran og vextir í Evrópu eru
stöðugri en krónan, en evran er engin allsherjarlausn á efnahagsvanda og
eyðslu umfram tekjur.
Oft er kvartað undan gengissveiflum krónunnar og áhrifum sveiflna á
verðlag innfluttra vara. Um 70% utanríkisviðskipta Íslands eru við EES og
um 40% við evrusvæðið. Stöðugt gengi krónu gagnvart evrópskum gjald-
miðlum er því mikilvægt. Árin 2000–2007 voru gengissveiflur krónunnar
gagnvart evru ekki meiri en sveiflur dollars gagnvart evru. Árið 2008 varð
svo mjög stór gengisleiðrétting á Íslandi, en eftir það hefur Seðlabanki Íslands
haldið gengissveiflum krónunnar innan marka sem gengur og gerist meðal
gjaldmiðla á frjálsum markaði.19 Ef Íslendingar taka upp evru verða gengis-
sveiflur gagnvart evrusvæðinu úr sögunni, en ekki gagnvart öðrum gjald-
miðlum. Til langs tíma litið hefur vandamál Íslendinga ekki verið gengis-
sveiflur krónunar heldur gengissig hennar. Sveiflur krónunnar niður á við
hafa ávallt verið meiri en upp á við. Þetta kallast verðbólga á venjulegu máli
en helsta orsök verðbólgu er að seðlabankar láta undan efnahagsþrýstingi
og prenta peninga umfram aukningu á landsframleiðslu. Vísitölubinding er
síðan vatn á myllu verðbólgunnar þar sem laun og verðlag hækka sjálfkrafa
ár frá ári og fleiri og fleiri peningaseðla þarf til að halda verðbólguhag-
kerfinu gangandi. Seðlabanki Evrópu hefur sýnt mikinn aga á þessu sviði og
mættu Íslendingar taka hann sér til fyrirmyndar.
Sameiginleg fjármál og styrkjakerfi ESB Ísland tekur nú þegar þátt í nokkrum
evrópskum samvinnuverkefnum gegnum EES-samstarfið, m.a. á sviði
menningarmála og vísinda. Við ESB-aðild mun Ísland taka fullan þátt í
fjármála- og styrkjakerfi bandalagsins. Fjárlög ESB eru nálægt 1% af lands-
framleiðslu alls bandalagsins og er það nánast ekkert miðað við ríkisfjárlög
einstakra ríkja sem iðulega eru milli 30-50% af landsframleiðslu þeirra. Um
45% sameiginlegra útgjalda ESB fara í uppbyggingar- og þróunarmálefni,
en þar þiggja fátækari svæði bandalagsins ívið meiri styrki en ríkari svæði.
Önnur 40% fara svo í landbúnaðarstyrki og ýmis dreifbýlismál. Það litla sem
eftir er fer til mannréttindamála, aðstoð við nágranna- og umsóknarríki,
þróunaraðstoð í Þriðja heiminum, stjórnsýslukostnað og aðra smærri
málaflokka. Þessir styrkir eru ekki greiddir beint frá Brussel til einstaklinga
og heimila heldur fara þeir í gegnum opinber ferli og hafa þannig áhrif á
fjármál hins opinbera en ekki beint á einstaklinga og heimili.
Tekjur ESB eru svo beingreiðslur aðildarríkjanna til bandalagsins sem
eru reiknaðar sem brot af landsframleiðslu, sameiginlegir tollar á vörur sem
fluttar eru inn í ESB, sykurgjöld, hluti virðisaukaskatts sem rennur til ESB,
auk annarra smærri tekjustofna. Nokkrar áætlanir hafa verið gerðar um