Skírnir - 01.04.2006, Blaðsíða 6
Frá ritstjóra
Það eru ekki mörg menningartímarit í Evrópu sem geta sett 180. ár á titilsíðu. Hið
íslenska bókmenntafélag sýnir mér mikinn heiður með því að fela mér ritstjórn
tímarits sem út hefur komið í 179 ár samfellt. Slíku tímariti verður ekki bylt. En
hver ritstjóri hlýtur að hnika til áherslum eftir sínum smekk og hugðarefnum.
Skírnir er menningartímarit og verður áfram vettvangur fyrir vandaðar fræðirit-
gerðir, en nú mun líka fjölga ritgerðum sem ekki eru akademískar og snerta ný við-
fangsefni og vekja vonandi bæði forvitni og andmæli. Uppsetning verður með hefð-
bundnu sniði, en ákveðið hefur verið að leggja niður efnisþáttinn „skáld Skírnis“.
Einnig verður hætt að birta útdrátt á ensku sem fylgdi ritgerðum, en ekki öðru
efni, en hins vegar haldið áfram með þáttinn „myndlistarmaður Skírnis".
Að undanförnu hefur vaknað þörf umræða um þátt Gunnars Gunnarssonar í
íslenskri bókmenntasögu. Hér eru birt nokkur merkileg bréf sem Halldór Laxness
skrifaði Gunnari um það leyti sem hann var að þýða verk hans á íslensku; þá skrif-
ar Einar Már Jónsson sagnfræðingur grein um sögulegar skáidsögur Gunnars.
Á þessu vori urðu mikil tímamót þegar Bandaríkjamenn ákváðu að flytja brott
orrustuþotur sínar frá Keflavíkurflugvelli. Helsti fræðimaður íslendinga á þessu
sviði, Valur Ingimundarson, skrifar grein um þróun þessa máls undanfarin fjörtíu
ár, eins konar minningargrein um varnarsamninginn.
Onnur mikilvæg umræða snýr að tungumálum og tungumálakennslu og um
það efni skrifar Margrét Jónsdóttir grein, byggða á nýlegum athugunum, þar sem
meðal annars kemur fram að þriðja tungumálið í íslensku skólakerfi fer oft for-
görðum og margra ára kennsla nýtist illa.
Þá eru tvær greinar um veruleikaskynjun og -sýn í nútímafjölmiðlun. Ármann
Jakobsson skrifar um veruleikasjónvarp, einhvern mest áberandi þátt dagskrárinn-
ar þessi ár, og Guðni Elísson birtir fyrri hluta greinar um DV og gotneska heims-
sýn — grein sem nú hefur komið í ljós að gæti allt eins orðið minningargrein.
Annar fráfarandi ritstjóra Skírnis, Sveinn Yngvi Egilsson, skrifar hér afar for-
vitnilega grein um kvæðið Illan læk eftir Jónas Hallgrímsson og uppruna þess, en
Alda Björk Vaidimarsdóttir birtir ítarlega athugun á ástinni, dauðanum og lesand-
anum í þrem skáldsögum Steinunnar Sigurðardóttur. Góð hefð er fyrir birtingu
heimspekilegs efnis í Skírni og að þessu sinni skrifar Atii Harðarson um auðmýkt.
Það er forvitnilegt að fá skáld til að skrifa um skáld, og í þessu hefti skrifar Jón
Kalman Stefánsson um Gyrði og Einar Kárason um Borges en Matthías Johannes-
sen frumbirtir þýðingu sína á kvæðinu „Snorri“ eftir Borges af því tilefni. Rithöf-
undar fjalla líka um bækurnar sem hlutu íslensku bókmenntaverðlaunin í ár: Árni
Bergmann skrifar um Jón Kalman og Guðmundur Andri Thorsson um skáld lit-
anna, Kjarval. Bókmenntavettvangurinn breytist ört, ekki síður en bókmenntirnar,
og ritstjóra þótti líklegt að lesendur Skírnis væru forvitnir um nýja skáldahópinn
sem kennir sig við Nýhil: Viðar Þorsteinsson útgáfustjóri Nýhils skrifar um starf
þeirra og sjálfsmynd.
Kápumyndina á myndlistarmaðurinn Hildur Bjarnadóttir og Skírni lýkur með
grein um Hildi og verk hennar eftir Auði Ólafsdóttur.
Góða skemmtun!
Halldór Guðmundsson