Skírnir - 01.04.2006, Blaðsíða 7
RITGERÐIR
HALLDÓR LAXNESS
Bréf til Gunnars Gunnarssonar
Reykjavík, 19/9 1940
Kæri vinur.
Þakka þér bréf þín og bið afsökunar að ég skuli ekki hafa sent
þér línu fyr en nú, vissi reyndar um að þú fékst bréf annarstaðar-
frá um höfuðtíðindi útgáfumálanna o.fl.
Nú get ég fært þér þær sjálfstæðu fréttir, að Leg med straa og
Skibe paa himlen eru báðar til fullþýddar á íslensku, en því miður
aðeins í einu einasta eintaki, og hef ég þessa dagana verið að taka
við því frá vélritunarstúlku minni, leiðrétta það og endurbæta.
Ymsir smámunir eru í því, sem ég hefði kosið að ræða við þig til
nánari skilníngs, óljós texti, eða hlutir sem ég mundi gera ráð fyrir
að þú vildir hafa þýdda á íslensku með ákveðnum hætti, jafnvel
ákveðnum orðum, og vona fastlega að við getum haft fund um
þesa hluti — og þó náttúrlega fyrst og fremst þýðínguna alla í
heild — áður en farið verður að prenta. Ég hef þýtt bækurnar með
það í huga, að þú mundir lesa mig saman við frumtextann að meira
eða minna leyti, eða hafa eftirlit með mér, og þessi vitund hefur
náttúrlega verkað á mig eins og samviska að nokkru leyti, sum-
staðar kanski dálítið til ills, þannig að ég hef haldið mér nær danska
textanum en íslenskan þolir, en víðast, vona ég, til góðs, þannig að
ég hef reynt að draga fram eftir mætti sérkenni þín. Þó kappkosta
ég nú, við yfirlestur hdr. í vélriti, að strika út og leiðrétta þá staði,
þar sem frumtextinn er ofþræddur á kostnað íslenskunnar. Annars
eru danska og íslenska svo gjörólík mál, að maður verður að hugsa
hverja setníngu um frá rótum, og blátt áfram leggja hverja hugsun
í annað plan, ef þýðíngin á að njóta sín sem íslenskt mál.
Skímir, 180. ár (vor 2006)