Skírnir - 01.04.2006, Blaðsíða 226
224
ÁRNIBERGMANN
SKÍRNIR
nautn Jakobs eða óvæntum og fáránlegum og stórkostlegum uppákomum
lostans eða þá ástarinnar.
Má þá kannski segja að í þessum sagnasveig Jóns Kalmans Stefánsson-
ar sé mælt með lífsflótta — með því hvernig „sérleiðir" einstaklinga eru
upp hafnar og með því að gleyrna valdinu og hagkerfinu og því öðru sem
rekur áfram sauði í þorpum og borg veruleikans? Nei, það væri heldur
frekt og raunar óþarft. Ollu heldur skal nú svo úr lesið að Jón Kalman
tefli fram viðhorfi og breytni til andófs við tímann. Röddin sem kallar sig
„okkur“ fjallar á einum stað um það að trúin og vísindin og draumar um
betri heim hafi öll hopað á hæli og sofnað í nýjasta sófanum (62). Engu að
síður á okkar tími sér hetjur eins og aðrir tímar, hetjur sem eru á sinn hátt:
lýsing á ástandi, hugsunum okkar, draumum og vonum, hetja er tak-
mark, viti til að fara eftir, huggun í andbyr, manneskjan þarf á hetju að
halda, það liggur í eðlinu, skyldu hetjur okkar tíma vera fjölmiðlafólk,
innanhússarkitektar og kokkar?
Því er ekki svarað - en ef til vill er sjálft persónusafn skáldsögu Jóns
Kalmans vísbending sem stefnir frá fyrrgreindum „hetjum"— hans hetj-
ur og „vitar til að fara eftir“ eru þær sem láta ekki undan nauðhyggju tím-
ans, alráðri hugmyndatísku og mikilvægi þeirra er undirstrikað með því
að láta þær ráða athygli lesarans. Sumarljós er kannski öðrum þræði sakn-
aðarljóð um þá tíma þegar bjart var yfir litlum plássum bernskunnar —
en miklu stærri freisting er að lesa hana sem vísbendingu um valkosti sem
ekki liggja í augum uppi en eru þó til, viðleitni til að rétta af kúrsinn hjá
„okkur“, þessu ósjálfstæða liði sem í margri lágkúru mæðist. Það mætti
líka sjá í þessu ágæta verki viðleitni til að fara aðrar slóðir en þær sem nú
eru vinsælastar í kvikmyndum og sagnasmíð — þar sem harðir töffarar
skilja eftir sig lík í hverju skoti og grimmdin verður að fastri burðarstoð í
hverri sögugrind. Því ekki að huga að öðrum víddum, finna sér létti að því
„að það sé ennþá til svona fólk“ (158) — það er auðvitað ekki raunsætt að
gefa því svotil allt sviðið í lýsingu á litlu samfélagi, en það er í því róman-
tíska athæfi ljóðrænn, kankvís, úrræðagóður og hlýlegur vilji sem gaman
er að vita af.