Skírnir - 01.04.2006, Blaðsíða 228
226
JÓN KALMAN STEFÁNSSON
SKÍRNIR
II
Steintré er sjöunda smásagnasafn Gyrðis. Það fyrsta, Bréfbátarigningin
sem kom út árið 1988, er sér á báti, einungis fjórar sögur sem tengjast inn-
byrðis og sú lengsta á við stutta nóvellu. Þremur árum síðar kom annað
safnið, Heykvísl og gúmmískór, og með því steig Gyrðir út úr hinu klass-
íska smásagnaformi með sitt upphaf, ris og hnig, enda má segja að hans
menn séu höfundar á borð við Brautigan og Saroyan sem felldu smá-
sagnaformið að nýrri öld, nýrri skynjun, nýjum tíma. Sögurnar í
Heykvíslinni eru flestar stuttar, sumar ekki nema rúm blaðsíða, og í næstu
tveimur söfnum, Tregahorninu og Kvöldi í Ijósturninum, þróar Gyrðir og
fágar sitt knappa form, sögur af einbúum, draugum, fljúgandi verum og
öðrum kynjadýrum; af manni sem hermdi svo vel eftir hundum að hann
breyttist sjálfur í hund. Marglofaður stíll þessara bóka og efniviður falla
svo nálægt hvor öðrum að það er varla hægt að greina þar á milli; and-
rúmsloftið er ekki beinlínis dimmleitt, en það má hiklaust tala um rökk-
ur eða húm og heillandi dulúð. Sögurnar eru ekki þrumandi stórfljót
heldur lækir sem muldra eitthvað um stráin og eilífðina, en sumstaðar er
holt undir bökkum og víða djúpir, dimmir hylir. Fjórða smásagnasafnið,
Vatnsfólkið, er svolítið ólíkt, sögurnar hafa aðeins lengst, fólkinu fjölgað,
kynjadýrum og draugum fækkað, minna um húm og dulúð í stílnum sem
er einfaldari. Það var í samræmi við breytingar á viðfangsefninu; sem áður
vinna stíll og innihald saman. Vatnsfólkið er lengsta bók Gyrðis, á kápu-
texta er því haldið fram að hann „nái nýjum listrænum hæðum“ í bókinni,
og ég get alveg tekið undir það, mér finnst Vatnsfólkið jafnvel taka fyrri
bókum fram, og líka næstu bók á eftir, verðlaunabókinni Gula húsinu.
Það er fullkomið jafnvægi í Vatnsfólkinu, hver saga lítill alheimur útaf
fyrir sig, treginn oft undirliggjandi, mýgrútur af litlum atvikum sem
springa vissulega ekki framan í okkur, en kveikja myndir, hugrenningar,
hreyfa við einhverju í huga lesandans, vekja eitthvað í djúpunum, og er
það ekki markmið alls skáldskapar; eða hvað skyldum við vilja meira?
III
Þegar Steintré kom út í september síðastliðnum voru fimm ár liðin frá
síðasta smásagnasafni Gyrðis, Gula húsinu. Það eru líka nýjungar í Stein-
trénu. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir benti á í dómi sínum í Víðsjá að
augljós þráður sé á „milli Steintrés og tveggja síðustu bóka höfundar;
skáldsögunnar Hótelsumar og ljóðabókarinnar Upplitað myrkur“. Utlit
bókarinnar vekur strax athygli manns, og fjarvera Elíasar B. Halldórsson-
ar, en myndir Elíasar prýddu kápur á öllum fyrri smásagnasöfnum Gyrð-
is, dúkristur hans og tréristur skreyttu síður og kölluðust á við sögurnar,
enda eru þessi söfn með fallegri bókum sem hafa komið út síðustu árin.
En í Steintré eru engar myndir eftir Elías, hvorki á kápu né inni í bókinni.