Skírnir - 01.04.2006, Blaðsíða 227
JÓN KALMAN STEFÁNSSON
Skáldskapur er ekki kanínur
upp úr hatti
Gyrðir Elíasson:
Steintré.
Mál og menning 2005.
I
Ég velti því stundum fyrir mér hvort skáldskapur með grófum pensil-
strokum höfði sterkast til okkar sem búum hér við ysta haf, þar sem
áherslan er lögð á framvinduna, það má vera fyrirgangur í henni, stór-
gerðar persónur, fyndni fremur en húmor, tilfinningar hálffaldar í kald-
ranalegri ironíu, sumsé, allt sem bækur Gyrðis Elíassonar hafa ekki. Ég
nefni þetta hér því ég verð stundum hugsi yfir sambýli Gyrðis við þjóð
sína, viðtökum verka hans, muldri götunnar um skáldskap hans. Éyrir
rúmum tíu árum vildu allir standa við hliðina á Gyrði, hann var ausinn
lofi, ósjaldan talað um galdur, bækur hans sátu kannski ekki á metsölu-
listum, en virðingin var mikil, viðurkenningar hlóðust að, árið 2000
fékk hann bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness og síðan Hin íslensku
bókmenntaverðlaun fyrir smásagnasafnið Gula húsið, og þar með hafði
hann hlotið allar þær opinberu viðurkenningar sem rithöfundi geta
hlotnast hérlendis. En þá fór líka að fjara undan, og síðustu árin hafa
viðbrögð við bókum hans ósjaldan einkennst af deyfð, ég segi ekki pirr-
ingi, en orðið kemur þó upp í hugann. Þægilegt jobb, að skrifa alltaf
sömu sögurnar, sagði einhver svo ég heyrði um nýjustu bók hans, smá-
sagnasafnið Steintré, sem kom út í september í fyrra — og vakti ekki
mikla athygli. Kannski þrír dómar, en svo var það ekki mikið meira, eins
og það væri ekkert til að tala um. Síðastliðin ár hafa ritdómarar, með ör-
fáum undantekningum, lítið sagt um verk Gyrðis, hafa nefnt, eins og
þeir væru að fara með utanbókarlærdóm, einsemdina, ógnina, stílinn en
lagt mikla áherslu á að bókin sé hluti af samfellu og þróun í höfundar-
verki hans, og komið sér þannig undan því að taka á bókinni sem sjálf-
stæðu verki. En eru ekki allar bækur höfunda þróun í höfundarverki
þeirra? Merkilegt að hugsa til þess hvernig svona innantómir frasar,
hluti af samfellu og þróun í höfundarverki, ná að festa sig í sessi og lím-
ast við höfunda; hugsunarleti gagnrýnandans sem víkur sér undan í stað
þess að taka á efninu.
Skírnir, 180. ár (vor 2006)