Skírnir - 01.04.2006, Blaðsíða 10
8
HALLDÓR LAXNESS
SKÍRNIR
Reykjavík, 1. jan. 1941
Kæri vinur.
Gleðilegt nýár og afsakaðu að ég hef ekki sent þér línu utan hið
ljóta íklór í Heiðaharm, — þó fékk ég aldrei síðustu blaðsíðurnar
í óprentuðu ásigkomulagi, en á aðfángadagskvöld fékk ég bókina
prentaða frá útgefendum, sennilega eftir þinni fyrirsögn, sem ég
þakka, og mun bókin ekki hafa komist út til dreifíngar eða sölu
fyrir jól, enda bættur skaðinn, því allar almennilegar bækur drukna
í þessu auðvirðilega jólabókaflóði hér. Ég er sannfærður um að
áður en tvö-þrjú ár eru liðin skrifar þú íslensku með eins „réttri“
orðskipun og krafist verður og þar með hina bestu íslensku því
orðaval þitt er bæði mikið og gott. Stemníng þessarar bókar er eins
töfrandi, sterk og áfeing og nokkurrar bókar sem þú hefur áður
ritað, og það er gaman að mega njóta þessarar stemníngar í íslenskt
ritaðri bók frá þinni hendi. Ég veit um menn sem er hugsunarhátt-
ur þinn ákaflega fjarlægur, eins og t.d. Vilmundur landlæknir, sem
hafa fundið þessa töfra og látið ummælt, að nú fyrst hafi þeim orð-
ið höfundareinkenni þín skiljanleg og vilja fara að stúdéra þig. Ég
les fyrst og fremst stemnínguna í þínum bókum, og hún er oft í
mínum augum alveg fenómenall hlutur, eins og t.d. í Vikivaka og
De blindes hus, sem ég tel einhverja aðdáanlegustu smábók sem ég
þekki, — því miður held ég að oft vanti mikið á, að ég nái þessari
stemníngu í þýðíngu á þér, en mikið lángar mig samt við tækifæri
að fá að þýða De blindes hus, og reyndar Vikivaka. Nú hef ég ekki
litið á þýðíngu mína af Skipunum síðan ég lauk henni í ágústlok,
bókin altaf síðan verið geymd í þessu eina eintaki í eldtraustum
skáp, en það væri náttúrlega ákjósanlegt að við færum gegnum
hana báðir áður en hún fer í prentun, eða í próförk að minsta
kosti. Það stendur til nú þegar úti er jólaös og nýársreikníngsskil
að hefjast handa um prentun.
Það var verið að tala um að senda þér handritið austur, en ég
réð frá því vegna þess að það er ekki til nema þetta eina hdr., og
hér getur komið allur fjandinn fyrir póst bæði á sjó og landi, og
ekki síst eins og nú er ástatt.