Skírnir - 01.04.2006, Blaðsíða 204
202
ALDA BJÖRK VALDIMARSDÓTTIR
SKÍRNIR
hans er af þessum toga, án snertingar og hún í gestaherberginu.
Þegar hún rumskar um nóttina situr hann í djúpum stól við höfða-
lagið: „Það var kveikt á kertum og ég hafði á tilfinningunni að þau
væru hringinn í kringum rúmið. Ég fann líka reykelsislykt. Mig
langaði að biðja hann að hanga ekki yfir mér, slökkva á kertum og
fara sjálfur að sofa frekar en að vera áfram yfir mér í þessari
líkvöku. Ég átti þó að heita lifandi“ (86). Ritúalið, sem minnir
helst á kaþólska sálumessu, dæmir Brynhildi til innihaldslítillar
handanvistar í þessu lífi, frá þessari stundu tekur gráminn einn við:
„Það var ekki meira fyrir mig að hafa, ekki hérna megin. Allt sem
á eftir færi yrði langdregin leiðindi, kannski ekki einu sinni al-
mennileg þjáning [...]. Það sem beið mín var dauf óhamingja, ekk-
ert nístandi sem veigur var í“ (87). Hér virðast lífs- og dauðahvöt-
in fléttast saman sem aldrei fyrr. Brynhildur er hvorki lifandi né
dauð, heldur kannski lifandi-dauð.27
Sameining prófessorsins og Brynhildar verður til í upplausn,
varðveislan felst í dauða. Ástarsælan sprettur af skorti og snerting-
in merkir fjarveru. Og úr þessum skorti vex dýpsta sæla reynsl-
unnar, það augnablik sem Brynhildur dæmir allt sitt líf út frá. Frá
þessari stundu hverfist líf hennar um þá von að endurfanga sam-
runann, eða kannski skortinn. Brynhildur er upp frá þessu föst
innan þversagnarinnar sem Freud gat ekki leyst úr, þversagnar sem
textinn setur nánast fram sem einskismannsland á mörkum lífs og
dauða. Hús prófessorsins stendur á táknrænan hátt á þessum
mörkum, við kirkjugarðsvegginn. Þegar gengið er út á svalirnar á
íbúðinni hans liggur garður hinna dauðu „í stórum skugga fyrir
fótum okkar og ljósin í borg lifandi fólks glitruðu kringum hann“
og í huga Brynhildar verður prófessorinn „eins og prinsinn af
Montmartre kirkjugarðinum" (75).
Hundrab dyr í golunni snýst ekki síst um samspil lífshvatar-
innar og dauðahvatarinnar, og það hvernig þessar hvatir rekast á í
27 Guðni Elísson hefur fjallað í löngu máli um þennan eiginleika á ljóðagerð
Steinunnar þar sem konur eru iðulega dæmdar til lifandi dauða og hann les
ljóðin í samhengi við Evridísarminnið. Sjá grein hans „í kirkjugarði nefnum við
ekki nöfn: Tími og tregi í ljóðum Steinunnar Sigurðardóttur“, Ritið 3/2003,
sérstaklega bls. 104-11.