Bændablaðið - 07.11.2019, Page 37
Bændablaðið | Fimmtudagur 7. nóvember 2019 37
börkinn með sér á trúboðsferðum
sínum um heiminn og um tíma voru
þeir einráðir á markaði með hann og
önnuðu ekki eftirspurn.
Fyrstu heimildir um notkun
kínabarkar eða kínins til lækn-
ingar í Evrópu, Englandi og Ítalíu,
er frá 1677. Sagt er að bæði Karl
II Englandskonungur og sonur
Loðvíks 14. konungs Frakka, hafi
sýkst af malaríu og að enski lækn-
irinn Robert Talbor hafi gefið þeim
kínin á laun þar sem margir kirkj-
unnarmenn voru á móti notkun þess
vegna tengsla lyfsins við Jesúíta.
Samkvæmt uppskrift sem franski
kóngurinn birti eftir dauða Talbor
samanstóð mixtúra hans af sjö
grömmum af rósablöðum, tveimur
60 millilítrum af sítrónusafa og tals-
verðu magni af kínabarkardufti sem
blandað var með víni.
Í fyrstu voru kínabarkartré sem
fundurst í skógum felld og börkurinn
af þeim og rótum þeirra skrælaður
af og þurrkaður. Þrátt fyrir að inn-
fæddum í Suður-Ameríku hafi lengi
tekist að halda síðustu vaxtarstöðum
trjánna leyndum gekk hratt á þau og
ljóst að hefja þurti ræktun á þeim.
Bretar, Spánverjar og Hollend-
ingar sendu söfnunarleiðangra inn í
skógana og upp í fjöllin til að safna
fræjum og leita að bestu tegundun-
um til ræktunar. Afrakstur þessara
leiðrangra var nýttur til að koma upp
kínabarkartrjám í Suður-Amerku en
hluti efniviðarins, fræ og græðlingar,
var flutt til eyjunnar Jövu, Srí Lanka
og Indlands.
Um miðja nítjándu öld tókst
Bretanum Charles Ledger og inn-
fæddum aðstoðarmanni hans,
Manuel, að verða sér úti um nokkur
fræ í Bólivíu af Cinchona tegund
sem seinna hlaut heitið C. ledger-
iana. Algert bann var við að flytja
fræin úr landi og þegar Manuel var
gripinn við að aðstoða Ledger við
að smygla fræjunum úr landi var
hann handtekinn og barinn til bana
af bólivískum hafnarvörðum. Ledger
komst undan með fræin og síðar kom
í ljós að trén sem upp af þeim uxu
voru óvenjulega rík af kínini.
Ledger bauð Bretum að kaupa
fræin en þeir sýndu þeim engan
áhuga. Hollendingar voru jákvæðari
og keyptu fræin og í framhaldi af
því urðu Hollendingar ráðandi á
kínabarkarmarkaði með yfir 95%
markaðshlutdeild. Stærstur hluti
kínabarkartrjáa sem ræktuð eru í
Suðaustur-Asíu í dag eru afkom-
endur þessara fræja.
Seinni heimsstyrjöldin varð til
þess að hafist var handa við að leita
að tegundum Cinchona-trjáa með
hátt innihald kínins og að rækta þau
bæði í Afríku og Suður-Ameríku.
Árið 1820 var virka efnið gegn
malaríu, kínin, einangrað úr plönt-
unni en það var ekki fyrr en árið
1944 að tókst að framleiða lyf gegn
sjúkdómnum í lyfjaverksmiðjum.
Fyrir þann tíma voru hundruð þús-
unda hektara votlendis víða um heim
ræstir fram í þeim tilgangi að eyða
búsvæði moskítóflugunnar sem ber
sjúkdóminn. Auk þess sem skor-
dýraeitrið DDT var óspart notað til
að drepa moskítóflugur.
Mýrarkalda eða malaría
Malaría eða mýrarkalda er smit-
sjúkdómur sem í dag er útbreiddur í
mörgum hitabeltislöndum en þekkt-
ist áður víða um heim. Talið er að
sjúkdómurinn hafi ekki þekktst
í Suður-Ameríku fyrir komu
Evrópumanna til álfunnar. Malaría
veldur einum til þremur milljónum
dauðsfalla á ári, og eru það aðal-
lega ung börn í Afríku sem látast
af völdum sjúkdómsins í dag. Talið
er að malaría sé sá sjúkdómur sem
flesta hefur lagt af velli af öllum
sjúkdómum heimsins.
Elstu heimildir um malaríu
koma frá Kína og eru frá því um
2700 fyrir upphaf okkar tímatals.
Áður en lækning við sjúkdómnum
fannst stóð yfir helming jarðarbúa,
sem bjuggu við votlendi, hvort sem
það var í Asíu, Vestur-Afríku eða
Evrópu, ógn af honum.
Orsök malaríu er einsfrumu
sníkjudýr sem berast á milli
manna með stungum kvenkyns
moskítóflugna. Talið er að sníkju-
dýrið hafi komið fram á sjónarsviðið
fyrir 50 til 100 þúsund árum en fyrst
náð verulegri útbreiðslu fyrir um
10 þúsund árum. Sníkjudýrin sýkja
rauð blóðkorn í hýsli sínum þar sem
kynlaus fjölgun á sér stað. Að lokum
springa blóðkornin og sníkjudýrin
losna út í blóðrásina og sýkja önnur
rauð blóðkorn. Þetta veldur sótthita
og blóðleysi og í alvarlegum tilvik-
um geta sjúklingar fallið í dá og lát-
ist í kjölfarið.
Meðal nafnþekkts fólks sem
dáið hefur vegna malaríu eru
skáldið Lord Byron, enski stjórn-
málamaðurinn Oliver Cromwell,
spænski landkönnuðurinn Vasco
da Gama, David Livingstone, hjól-
reiðamaðurinn Fausto Coddi, þýski
uppfinningamaðurinn Joesf Ressel,
sem hannaði eina af fyrst skipsskrúf-
unum og grasafræðingarnir Valerius
Cordus og Peter Forsskål. Páfinn
Urban VII lést af malaríu og líka
myndlistarkonan Charlotte Canning
og hefðarkonan Eleanor af Toledo.
Auk ótaldra hundruð milljóna fátæk-
linga sem enginn man eftir í dag
Nafnaspeki
Svíinn Carl Linnaeus gaf plönt-
unni nafnið Cinchona officinalis
eftir að hafa skoðað þurrkað eintak
plöntu sem vex á afmörkuðu svæði
í Ekvador og hefur lítið lækninga-
gildi.
Ættkvíslarheitið Cinchona
er dregið af nafni Chinchona
greifynju sem sögð er hafa verið
fyrsti Evrópubúinn til að læknast
af malaríu með því að drekka seyði
kínabarkar. Linnaeus misritaði nafn
greifynjunnar og sleppti einu hái
þegar hann nefndi ættkvíslina eftir
henni. Kannski hefur hann verið
búinn að fá sér neðan í því.
Tegundarheitið officinalis segir
að um lækningaplöntu sé að ræða.
Á ensku kallast plantan og lyfið
sem úr henni er unnið quinine, red
cinchona, cinchona bark, Jesuit’s
bark, Jesuit's Tree, Pulvis Patrum,
Loxa bark, Jesuit’s powder, countess
powder, Peruvian bark og China
Bark.
Heitið kínin er dregið af quina-
quina, eða quinquina, sem er gamalt
evrópskt heiti á trénu og komið frá
Quechua-fólkinu í Perú. Í Indónesíu
kallast tréð kina, í Malasíu kuin-
in, kinin í Taílandi og canh ki na
í Víetnam. Á dösku kallast tréð
kinabark og þaðan er íslenska heiti
kínabörkur komið.
Heitið kínabörkur er villandi þar
sem ættvíslin er upprunnin í Suður-
Ameríku og var fram á miðja síðustu
öld aðallega ræktuð á Indlandi, Jövu
og í Indónesíu. Með réttu ætti tréð
að heita kíníntré.
Sjúkdómsheitið Malaría er
komið úr ítölsku, mala aria, og
þýðir slæmt loft sem skýrist af þeim
misskilningi að í eina tíð var orsök
sjúkdómsins talin vera slæmt eða
rakt loft. Íslenska nafnið mýrarkalda
er leitt af því að moskító flugur verpa
á mýrarsvæðum eða lygnum vatns-
yfirborðum.
Ræktun og nytjar
Rúmur helmingur framleiðslunnar á
kínini í dag er nýttur til framleiðslu
bragðefnis sem notað er í kínin-
vatn, tónik og aðrar drykkjar- og
matvörur. Það sem eftir stendur er
nýtt til lyfjaiðnaðar.
Fræ kínabarkartrjáa geymast í
um ár á þurrum, svölum og dimmum
stað eftir tínslu og spíra á tveimur
til þremur vikum eftir að þeim er
sáð. Ungar plöntur vaxa hægt og
er yfirleitt ekki plantað út fyrr en
eins og hálfs árs gömlum og það
tekur fjögur til sjö ár fyrir þær að
blómstra.
Græðlingar ræta sig yfirleitt vel
og einnig er talsvert um að góðar
fræplöntur séu græddar á góða rót-
arstofna.
Trén dafna best þar sem úrkoma
er mikil, allt að 4000 millimetrar
á ári, og loftraki mikill. Þar sem
plönturnar eru upprunnar hátt til
fjalla er kjörhiti þeirra 14 til 21° á
Celsíus en þær dafna illa fari hit-
inn niður fyri 7° og upp fyrir 27° á
Celsíus. Kínabarkartré kjósa eilítið
súran og vel framræstan eða gljúpan
jarðveg og þola illa að standa í vatni.
Það tekur um tólf ár fyrir trén
að ná nægum barkarþroska til að
hægt sé að vinna hann. Í dag er börk-
ur trjáa í ræktun losaður frá með
því að berja hann með barefli og
síðan skorinn af trjánum í lóðréttum
ræmum og mosi settur í sárin sem
gerir trénu kleift að mynda nýjan
börk.
Uppskera á tíu tonnum
á hektara telst góð
Samkvæmt gömlu læknisráði á að
hella bolla af sjóðandi vatni yfir eitt
til tvö grömm af þurrkuðu og muldu
kínabarkardufti og drekka eftir að
duftinu hefur verið hrært saman við
vatnið. Seyðið er sagt lystaukandi
og bæta meltinguna. Hreint kínin í
litlum skömmtum getur verið ban-
vænt.
Kínin og Nýja-Ísland
Í þriðja tölublaði Heimskringlu sem
gefið var út í Winnipeg í Kanada
árið 1895 er grein sem ber fyrir-
sögnina Kínín-börkurinn, hvar og
hvernig hann fæst. Í greininni er
söfnun barkarins ágætlega lýst en
um leið skín í gegn hugmyndin um
hinn göfuga villimann sem alltaf
er glaður og mætir hverri raun með
bræðralagi á vör.
„Þeir, sem kaupa Kínin-vín í
lyfjabúðunum hafa litla hugmynd
um alt það erfiði, allar þær þrautir
og hörmungar, sem barkarleitend-
ur verða að ganga í gegn um, til
að útvega sjúklingum þetta ágæta
meðal.
Aðalheimkynni þessara undra-
verðu trjáa, er bera kínin-börk, er
í Andesfjöllunum vestanverðum,
innan ríkisins Peru í Suður-Ameriku.
Trén eru ekki ýkja há, verða hæzt 80
fet, en gild eru þau mjög og undra
fögur. Þau vaxa þráðbein og eru
krýnd með stórvöxnum hnappi af
blaðabreiðum laufum, dökkgrænum
á lit en með bleikrauðum rákum hér
og þar á hverju blaði.
Það er arfgeng atvinna að leita
að þessum berki í skóggeimnum
ómælilega og veglausa vestan í fjöll-
unum. Faðirinn elur upp son sinn
til að halda þessari atvinnu áfram,
venur hann á fjalla og klettagöngur
og alls konar hættur, sem barkar-
leitandinn hlýtur að mæta og yfir-
stiga, eða láta lifið ella, og sem er
alment að verður endirinn. Launin
sem þessir fjallgöngumenn fá, eru
lítil, en þarfir þeirra eru líka fáar
og lífsframfærzlan ókostbær, svo
að þegar vel gengur leitin, lifa þeir
og þeirra fólk sældarlífi og eru hinir
ánægðustu.
Þegar lagt er af stað í barkar-
leit, eru konur og börn og ættingjar
kvaddir með trega, því enginn getur
sagt hvort faðirinn muni koma lif-
andi heim aftur. Líkurnar eru jafnar
með og mót. Svo leggur húsfaðirinn
hörundsdökki (leitarmenn þessir eru
allir Indíánar eða Indíánaættar) út
í myrkviðinn, endalausan eins og
fjallabálkinn. Með sér hefir hann
ekki meira af fötum en svo, að
hann getur laklega skift um bún-
ing, og ekki önnur áhöld en öxi hníf
og önnur smágögn. Með þesssum
áhöldum þarf hann að byggja sér
brýr yfir ókleifar gilskorur og yfir ár
sem hann treystir sér ekki að synda.
Neð þessum sömu áhöldum verður
hann að veiða sér til matar, verjast
ahlaupum óargadýra og ægilegra
höggorma í leynum myrkviðar-
ins. Almennast er að hver húsfaðir
leggur einn sér á öræfi en þó kemur
það fyrir að nokkrir þeirra bindas í
fóstbræðralagi, fylgjast að alla leið,
vinna saman og skifta berkinum,
sem þeir finna, jafnt á milli sín. Er
þá glatt á hjalla umhverfis eldinn
er þeir kynda á kveldin, þrátt fyrir
þreytu og hættur dagsins og þrátt
fyrir yfirvofandi háska daginn eftir,
ef ekki strax um nóttina, af hálfu
villidýra. Þegar loksins flokkurinn
kemur á þær stöðvar, sem líklegt
er að Kínintré finnist á, er verk-
um tafarlaust skift. Sjónbeztu og
glöggustu mennirfur eru látnir klifra
hæstu trjátoppana og líta þaðan að
hinum einkennilegu trjám, aðrir
viða að í eldinn, sumir sækja vatn
og sumir gera að veiðum og undir-
búa til matbúnings. Þegar alitlegur
fjöldi af Kínin-trjám sjást frá topp-
um hæstu trjánna, er viðstöðulaust
tekið til húsagerðar, hrófað upp skýli
fyrir vindi og regni. Þá liggur vel
á þeim fóstbræðrunum og fagna
þeir einlæglega hverjum, sem hér
að dyrum þeirra, án nokkurs til-
lits til þess, hvaða þjóðar hann er,
eða hvernig hörundslit hann hefir.
Móttökurnar eru bróðurlegar og
veitingarnar hinar beztu.
Strax með birtu á morgnana er
tekið til starfa og allan daginn til
sólseturs bergmála klappirnar og
hamrabeltin hljóð axanna, er þær
sökkva sér í rætur trjánna. Þegar tréð
er fallið, er tekið til að tálga börkinn,
í svo löngum ræmum sem verður.
Er það er verk og sársaukagjarnt,
því mennirnir eru klæðlitlir, en lauf
trjánna hörð og eins og hnífsegg og
undirviðurinn víðast alsettur þyrni-
broddum. Eru því barkarleitendurnir
allir meira og minna sárir og blóði
drifnir á hverju kvöldi. Eigi að síður
eru þeir kátir vel, er þoir sitja og
liggja umhverfis bálið, er þoir kynda
úti fyrir kofa sínum á hverri nóttu.
Svo seinlegt er að ná berkinum af
trjánum, að sé það stórt, líða margir
dagar áður en það er alveg afberkt
og er þó ósviksamlega gengið til
vinnu á meðan dagur er á lofti.
Jafnótt og berkinum er flett af
trénu, er hann látinn í bing eða
„flekk“ til að þorna, og er aldrei
minna en einn maður settur til
að gæta hans, snúa honum og sjá
um að hann þorni allur jafnt og
ofþorni hvorki eða vanþorni. Þetta
er léttasla verkið og fá þeir það einn
eftir annan, sem flest sár hafa fengið
af völdum ýmist villidýra, þyrnis-
ins eða laufanna af Kínintrénu. Þær
ræmur af berkinum sem eru þunnar,
eða ekki nema yztu himnurnar af
honum, þorna fljótt og hringa sig
hringa sig þá eins og hefilspænir
en sé vel tálgaður börkur, er hann
svo þykkur, að hann heldur sér þó
hann breiskþorni og þolir að hann
sé bundinn í bagga. Þegar nóg er
frngið af berkinum, eru reipi flétt-
uð úr vissri grastegund og þeim
bundið um baggana og þeir sívafðir
svo, að ekki ein ræma getur týnzt.
Úr grasi er og fléttuð breið gjörð,
sem gengur fram yfir ennið á
burðarmanninum og heldur bagg-
anum í stellingum á herðum hans.
Með þessa bagga, hvern frá 160
til 200 punda þungan, leggja þeir
svo í gönguna, oft fullar 800 mílur
til markaðar, um stiglausa skóga,
ókleif gil og hamra, en alls konar
óvætti, skriðdýr og ferfætlingar,
hvervetna á vegi þeirra. Á gangin-
um eru þeir sífelt að éta coeoa og
aðra ávexti, en þess á milli syngja
þeir uppihaldslaust sína einkenni-
legu söngva og stíga svo þungum en
drjúgum sporum, eftir hljóðfallinu,
eins og æfðir hermenn laga stig sín
eftir hljóði trumbunnar. Þrátt fyrir
hættur, hungur og þreytu, eru þessir
menn aldrei ókátir og kvarta aldrei
um að leiðin sé löng.“
Cinchona-plantekra á eyjunni Jövu.
Náttúruleg heimkynni kínabarkar-
trjáa er hátt í hitabeltisskógum
Andesfjalla í vestanverðri Suður-
Ameríku.