Milli mála - 2019, Page 188
188 Milli mála 11/2019
BRÚÐA MAMELIGU
Um kvöldið, eins og öll kvöld, hittumst við unga fólkið og
sungum og dönsuðum í einu tjaldanna. Það voru margir í kringum
mig og alltaf verið að óska mér til hamingju. Igruska var þarna líka.
Ég reyndi að forðast að horfa í augun á honum en gat það ekki. Þarna
var lífsförunautur minn, sá sem ég myndi eyða ævinni með, og ég
blygðaðist mín svo mikið að ég gat ekki talað við hann, sérstaklega
þegar bræður mínir tveir voru viðstaddir. Sá eldri þeirra kom til mín
og sagði:
–Litla systir, við ætlum að leyfa ykkur að vera ein saman í smá-
stund. Við segjum foreldrunum ekki frá því, en vertu prúð!
Ég gat ekki trúað því að bróðir minn, sem hafði alltaf verið
strangur við mig, gæti verið svona góður. Hann lét sig hverfa, með
öllum hinum, og fór í annað tjald. Loksins vorum við ein!
Igruska gekk til mín. Ég titraði og skalf. Hann tók um hend-
urnar á mér og hélt þeim í sundur til að geta virt mig betur fyrir sér:
–Þú ert enn fallegri en þegar ég sá þig fyrst!
Ég þorði ekki að opna munninn. Hann bætti því við:
–Segðu mér hvað þig vantar. Ég bið mömmu um að láta þig fá
það.
–Mig vantar ekki neitt; ég hef aldrei átt svona mikið.
–Þig mun ekki skorta neitt. Ég mun vaka yfir þér, jafnvel úr
fjarska. En það er eitt sem ég vil að þú segir mér: Ertu alveg sátt við
að verða konan mín?
–Þú veist það, svaraði ég.
–Já, en mig langar að heyra þig segja það.
Við hlustuðum á sönginn og köllin í þeim sem höfðu fært sig yfir
í annað tjald til að trufla ekki okkar fyrsta fund.
–Ég virði föður þinn og honum finnst þú vera of ung til að giftast.
Hann bað um eins árs frest. En eitt ár er langur tími. Hvað finnst
þér?
–Ég mun alltaf hlýða föður mínum. Ekki búast við því að ég
brjóti gegn vilja hans.
–Faðir minn borgaði með gullpeningum upphæðina sem faðir
þinn setti upp. Þú tilheyrir mér núna. En ég vil síst af öllu valda þér
sársauka. Ég veit ekki hvenær, en áður en eitt ár er liðið kem ég að
ná í þig. Vertu tilbúin. Ég verð sektaður af kris en ég mun borga.
Ekki gleyma þessu, ég kem!