Bændablaðið - 05.11.2020, Blaðsíða 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 5. mars 2020 7
LÍF&STARF
Í síðasta þætti áttum við stund með Eiríki Grímssyni frá Ljótshólum. Ögn var efnið endasleppt, svo úr því skal nú bætt. Eiríkur
telur óminnishegrann kominn til að vera:
Tölti ég um Tunguveg,
tak í hryggnum fann ég.
8 vísur orti ég,
-enga þeirra kann ég.
Á leiðinni til Tenerife:
Ég glími við gleymskunnar fjanda,
glóran er öll á burt.
Er þó að fara til annarra landa;
-ekki man ég hvurt.
Eiríkur leikur sér hér með „örhendur“, eða
styttur mætti etv. kalla háttinn:
Gamla fólkið gengur hægt um götur lúið,
enda er þetta bráðum búið.
Og svo:
Gamla fólkið gengur lúið,
búið.
Fyrir stuttu orti Eiríkur um skáldbróður
sinn Einar Kolbeinsson í Bólstaðarhlíð.
Einar var þá nýkominn úr hjartaaðgerð eða
„stillingu“ sem kallað er:
Ástandið var ansi skítt
á okkar góða vini,
en allt er nú sem orðið nýtt
í Einari Kolbeinssyni.
En að alvarlegri málum. Nýlegar harm
fregnir af riðusmiti í Skagafirði skaka
samfélagið. Á dögunum birti Þórarinn
Eldjárn skáld ljóðkorn á vefnum sem
nefnist „Niðurskurðarvísur“. Kveðskap
þann sótti Þórarinn í bókarkompu föður síns,
Kristjáns forseta frá Tjörn í Svarfaðardal.
Ljóðið er eftir Sigurð Vilhjálmsson bónda
í Máskoti ofanvert í Reykjadal SÞing.
Sigurður (1880–1948) gæti hafa ort kvæðið
á árum mæðiveikinnar sem geisaði á
þessum árum. Hver sá sem sauðfé hefur
átt og haldið, en síðan misst, getur lifað sig
inn í þennan harmræna hugsanagang sem
ljóðið lýsir svo einkar vel:
Einhver vöntun, svo ég segi
satt og rétt til alls,
dregur mig á vanans vegi
að vitja húss og stalls.
Engar slóðir uppi í heiði
ýfa mjallartraf;
jafnvel snjórinn er í eyði
allt að dyrastaf.
Engin hlust mitt skóhljóð skilur,
skipt er nú um hátt.
Dauðaþögn og enginn ylur
ilms í hálfri gátt.
Hér er engri önn að ljúka
engu að koma í stand,
aðeins rétt að stansa og strjúka
stoð og jötuband.
Tilgangslaust að teygja græna
tuggu í garðalag,
engin vonaraugu mæna
upp á mig í dag.
Fémætt bréf barst mér frá Sigurði Alberti
Ármannssyni, trúlega búandi í Reykjavík.
Bréfið hefur að geyma kveðskap langa
langafa hans, Óla Þorbjörns Sveinssonar
frá Selá á Skaga,( f. 1846–?) Mikið er af
ljómandi vísum í þessu safnbréfi. Tólf ára
gamall orti Óli Þorbjörn sína fyrstu vísu:
Þrjú ég árin, ungur smár og magur
eitt sinn rauna eyddi tíð
úti á Hrauni í Sléttuhlíð.
Foreldra sína missti Óli Þorbjörn ungur, móður
sína átta ára, en föður sinn fjórtán ára og orti þá:
Æsku krókótt leiðin lá
í læðing rauna, hljóður.
Fæði skorti, fötin smá,
föðurlaus og móður.
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
261MÆLT AF
MUNNI FRAM
Dýrafjarðargöng eru án efa glæsilegustu göng sem grafin hafa verið á Vestfjörðum til þessa. Það var tékkneski verktakinn Metrostav og íslenski
verktakinn Suðurverk sem sáu um gangagerðina, en tilboð þeirra í verkið nam 8,7 milljörðum króna, eða 93% af kostnaðaráætlun.
Mynd / Haukur Már Harðarson
Dýrafjarðargöng formlega opnuð 25. október 2020:
Með tilkomu ganganna styttist
Vestfjarðavegur um 27,4 km
– Uppbygging vegar yfir Dynjandisheiði er lykillinn að því að þessi fjárfesting nýtist vel
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu
ráðherra opnaði Dýrafjarðargöng í
dag ásamt forstjóra Vegagerðarinnar,
Bergþóru Þorkelsdóttur. Opnunin var
með óvenjulegum hætti vegna COVID
19 og hringdi ráðherra úr Vegagerðinni
í Reykjavík vestur á Ísafjörð í vaktstöð
Vegagerðarinnar. Þar lyftu menn síðan
slánum upp frá báðum gangamunnum.
Við munnana beið mikill fjöldi Vestfirðinga
í löngum bílaröðum til að fá að komast í
gegn og geta þannig fagnað þessari miklu
samgöngubót sem göngin eru.
Það var tékkneski verktakinn Metrostav
og Suðurverk sem sáu um gangagerðina, en
þau fyrirtæki áttu lægsta tilboðið í verkið,
eða upp á 8,7 milljarða króna. Var það 630
milljónum undir kostnaðaráætlun eða 93%
af 9,3 milljarða kostnaðaráætlun. Gekk
framkvæmdin afskaplega vel.
Óvenjuleg opnunarathöfn
Hinni óvenjulegu opnunarathöfn var streymt
á netinu frá Reykjavík en einnig var streymt
myndum að vestan sem tengdust streyminu
frá Reykjavík. Öllu tali var einnig útvarpað á
FM í og við göngin þannig að þeir sem biðu
í bílum sínum gátu hlustað á ávörp ráðherra
og vegamálastjóra.
Það voru börn úr Grunnskólanum á Þingeyri
sem fóru fyrst í gegnum Dýrafjarðargöng en
með þeim í för var Gunnar G. Sigurðsson,
sem mokað hefur Hrafnseyrarheiði í nærri
hálfa öld. Síðustu ár hafa börn í skólanum
tekið virkan þátt í að þrýsta á samgöngubætur.
„Skipta sköpum fyrir byggðir og búsetu“
„Dýrafjarðargöng skipta sköpum fyrir byggðir
og búsetu á Vestfjörðum. Með tilkomu
ganganna styttist Vestfjarðavegur um 27,4
km og þau leysa Hrafnseyrarheiði af hólmi,
sem oft hefur reynst erfiður og hættulegur
farartálmi. Göngin bæta umferðaröryggi, spara
tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár.
Með nýjum göngum og vegaframkvæmdum
á Dynjandisheiði verður til ný heilsársleið og
hringtenging um Vestfirði. Það er ekki spurning
í mínum huga að Dýrafjarðargöng munu koma
Vestfjörðum í heilsársvegasamband og styrkja
atvinnugreinarnar, fiskeldi og ferðaþjónustu
og skila sér margfalt til baka til samfélagsins,“
sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og
sveitarstjórnarráðherra í ávarpi sínu.
Ljóst er að Dýrarfjarðargöng ein og
sér gera ekki mikið til að bæta samgöngur
í landshlutanum. Því er afar brýnt að
uppbyggingu heilsársvegar yfir Dynjandisheiði
verði lokið sem fyrst. Eru framkvæmdir þegar
hafnar á suðurenda þeirrar leiðar niður í
Penningsdal og niður í Vatnsfjörð.
Tíu ár frá opnun Bolungarvíkurganga
Nú eru 10 ár síðan Bolungarvíkurgöng á milli
Hnífsdals og Bolungarvíkur voru opnuð þann
25. september 2010, en þau leystu af hólmi
Óshlíðarveg. Sá vegur hefur löngum verið
talinn einn hættulegasti vegur á Íslandi. Var
lagning hans mikið þrekvirki en hann var
ruddur með einni lítilli og frumstæðri Allis
Chalmers jarðýtu og af handafli. Óshlíðarvegur
var opnaður 1949. Var gangagerð þar orðin
aðkallandi enda er aðeins tímaspursmál
hvenær gríðarlega stór bergfylla mun hrynja
þar í sjó fram úr austanverðri Óshyrnu. Búast
menn við að sú skriða geti jafnvel orsakað
talsverða flóðöldu í Ísafjarðardjúpi.
Vestfjarðagöng verða flöskuháls
í vegakerfinu
Nú eru 24 ár síðan önnur aðkallandi göng
voru grafin á Vestfjörðum, en það voru
Vestfjarðagöng. Þau tengja Skutulsfjörð,
Súgandafjörð og Önundarfjörð. Voru þau
opnuð 14. september 1996 og leystu þá af
hólmi mjög erfiða fjallvegi um Breiðadals og
Botnsheiðar. Þetta eru mjög sérstök göng með
gatnamótum inni í miðju fjalli. Frá Tungudal
í Skutulsfirði eru tvíbreið 2.103 metra löng
göng inn að gatnamótum við afleggjarana
til Súgandafjarðar og Önundarfjarðar. Frá
gatnamótum í Botnsdal niður í Súgandafjörð
eru 2.907 metrar og 4.150 metrar yfir í
Breiðadal í Önundarfirði. Samtals eru
Vestfjarðagöng því 9.113 metrar að lengd.
Þó þessi göng séu ekki ýkja gömul, þá
þótti ekki verjandi að hafa þau öll tvíbreið,
heldur einungis stysta legginn frá Tungudal
að gatnamótum ganganna. Allt annað eru
einbreið göng. Í dag er Vegagerðin hætt að
hanna einbreið göng, enda hefur sýnt sig að
þau mæta illa umferðarþróun og standast vart
þær öryggiskröfur sem gerðar eru í dag.
Með tilkomu Dýrafjarðarganga þykir ljóst
að umferðarstraumurinn til og frá Ísafirði mun
í auknum mæli flytjast yfir á vesturleiðina. Það
þýðir að Breiðadalsleggur Vestfjarðaganga
mun verða flöskuháls á þeirri leið. Þá mun betri
hringvegatenging um Vestfirði án efa auka
straum ferðamanna um Vestfjarðakjálkann sem
mun enn þyngja á umferð um Vestfjarðagöngin.
Því er eðlilegt að spurt sé hvernig menn hyggist
leysa það mál.
Skutulsfjarðargöng og göng undir Hálfdán
Þar fyrir utan bíða sveitarstjórnarmenn á
norðanverðum Vestfjörðum svo í ofvæni
eftir að gerð jarðganga á milli Skutulsfjarðar
og Álftafjarðar verði sett á kortið. Þau munu
leysa af annan erfiðan veg um Súðavíkurhlíð
sem lokast mjög oft vegna snjóflóða á
hverjum einasta vetri. Einnig hafa íbúar á
sunnanverðum Vestfjörðum sett fram óskir
um jarðgöng undir fjallið Hálfdán á milli
Tálknafjarðar og Bíldudals. /HKr.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra opnar Dýrafjarðargöng
með símtali í vaktstöð Vegagerðarinnar á Vestfjörðum. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri
Vegagerðarinnar, fylgist með. Á skjánum sést rúta með grunnskólabörnum á Þingeyri bíða
eftir að fara fyrst í gegnum göngin. Mynd / Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið