Bændablaðið - 19.11.2020, Qupperneq 7

Bændablaðið - 19.11.2020, Qupperneq 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 19. nóvember 2020 7 LÍF&STARF Þegar þetta er skráð, er fyrsti snjór fallinn þetta haust hér við Eyjafjörð. Það er kalt í „kortunum“ næstu daga og það vekur upp vísu góða sem Þór Sigurðsson frá Sellandi í Fnjóskadal orti einhverju sinni við líkar aðstæður að hausti: Grösin sölna, grána fjöll, glöggt er haustsins letur. Svona fara sumrin öll, -senn er kominn vetur. Í síðasta vísnaþætti kynnti ég til sögu Óla Þorbjörn Sveinsson kenndan við Selá á Skaga. ( f. 1846 d.?) Kornungur byrjaði hann að gera vísur, og lýsir harðræði æsku sinnar og dapurlegum foreldramissi, felldum í fjórar línur. Föður- og móðurlaus réðst Óli Þorbjörn sem smali að Skíðastöðum í Ytri-Laxárdal í Skelfilsstaðahreppi. Til Laxárdals orti Óli þessar þrjár vísur: Laxárdals er lífvæn sveit, lýðum miðlar gjaldi, enga fegri ‘ég áður leit undir sólar faldi. Gleður bæði beima og sprund, blómi sveita talinn. Straumablá þar æðir um (?) út í sæ um dalinn. Áin veiði í sér ber, afli fæst þar mætur, í lygnum hyljum leikur sér laxinn daga og nætur. Og fólk flutti til Ameríku sem var vonar- land þess tíma. Eitthvað myndu menn þó hugsa sig um í dag: Lít ég yfir liðna tíð, löngu horfna daga. Hafís, frostið, fönn og hríð flúðu menn af Skaga. Veturinn 1918 orti Óli: Það er hagur öllum oss, eyðast baga tíðir þegar lagar fríður foss fjörðinn Skaga prýðir. Og á nýársdag 1932, orti Óli Þorbjörn: Stefnir á Skaga stórhríðin, stórum baga veldur. Nýársdagur nýrunninn, nú er ei fagur himinninn. Á efstu árum orti Óli næstu tvær vísur: Mitt er ævi skammtað skeið, skunda þrátt um stræti. Óðum hallar lífsins leið lúnum undan fæti. Kólnar blóð í æðum ótt, á ég lóð þó hjari. Þökk fyrir góða gleðinótt garpa og fljóðaskari. En víkjum til nýrri tíma. Í bréfkorni frá Pétri Péturssyni, lækni á Akureyri, greinir hann frá hagyrðingasamkomu, þar sem ásamt honum sat Óskar Sigurfinnsson í Meðalheimi. Þar var fyrir skáldin lagt, hvort þeir hygðust „gefa undan sér“ á Reðasafn Íslands að þeim látnum. Andsvar Óskars í Meðalheimi gleymist engum sem á hlýddu: Mér varð fyrir löngu ljóst að lífið allt má þreyja, enda hef ég aldrei sóst eftir því að deyja. Væna gripi velja ber vísindin svo dafni. Það er ekkert undir mér sem ætti heima á safni. Umsjón: Árni Geirhjörtur Jónsson kotabyggð1@gmail.com 262MÆLT AF MUNNI FRAM Karólína í Hvammshlíð gefur út dagatal í þriðja sinn: Sveitalífið og hugleiðingar um sauðfjárbúskapinn Karólína í Hvammshlíð heldur áfram að skrásetja sveitalífið í máli og myndum og gefa afraksturinn út í formi dagatals, um þetta leyti árs. Þetta er þriðja árið sem hún gefur út dagatal. Síðustu tvö ár gerði hún það meðal annars til að fjármagna kaup á dráttarvél – og vegna þess hversu vel þær útgáfur gengu, ákvað hún að láta slag standa einnig þetta árið. Karólína Elísabetardóttir býr í Hvammshlíð í Skagabyggð, Austur-Húnavatnssýslu, með kindur sínar, hesta og hunda. Hún keypti jörðina fyrir fimm árum er jörðin var í eyði og hefur smám saman verið að stækka bústofninn. „Ég hugsaði um það lengi fram og til baka hvort ég ætti að halda áfram að gefa út dagatal. En eftir að ég fékk um mitt sumar nokkrar fyrirspurnir um „næsta dagatal“ ákvað ég að láta vaða,“ segir Karólína. Sauðalitur mánaðarins „Fróðleikur, sögur og skoðanir“ er titillinn á dagatalinu, innihaldið er þar með að vissu leyti persónulegra en hin árin, þegar þjóðlegur fróðleikur var uppistaða hins ritaða máls. Auk upplýsinga um búskapinn á bænum og annarra staðreynda skrifar Karólína þannig líka skoð- anapistla núna; til dæmis um meintar tilviljanir, umdeildan lausagang búfjár og kindvænar rún- ingsaðferðir. Kaflarnir „sauðalitur mánaðar- ins“ eru einnig nýjung og upplýsa lesendurna ekki einungis um litbrigðin svart, mógolsótt, svartbotnótt, flekkótt og margt fleira, heldur eru líka einn eða tveir fulltrúar viðkomandi litar í Hvammshlíðarhjörðinni kynntir nánar. „Áherslan liggur þar með enn meira á sauð- kindinni en áður. Það er brýn þörf á því finnst mér, ekki síst í ljósi allt of lágs kjötverðs til sauðfjárbænda,“ útskýrir Karólína. „Það eru til ótal hrossadagatöl og ljósmyndabækur í kringum hesta en til dæmis lambadagatalið eftir Ragnar í Sýrnesi er undantekning. Mér finnst það stórfurðulegt. Íslenska sauðkindin skipti jafn miklu máli í því að halda lífi í fólkinu áður fyrr og er í dag ómissandi þáttur sveitamenningar og auðvitað sem atvinnugrein.“ Bara júlí og ágúst alveg snjólausir Eins og í fyrra fylgja áhugaverðar gamlar myndir sem passa við efnið, jafnvel fleiri en 2020. „En samt sem áður prýða dagatalið úrvals ljósmyndir úr hversdagslífi kindanna, hundanna og hrossanna í Hvammshlíð. Jörðin tilheyrir bæði Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði og var í eyði frá 1888 þangað til ég flutti. Núverandi bæjarstæði er í 310 m hæð þannig að á venjulegu ári eru einungis júlí og ágúst alveg „snjólausir“. Einstök náttúrufegurð birtist í mörgum myndum og auk þess persónuleiki fyrirsætanna sem eru langflestar nafngreindar. Þetta er einmitt eitt markmiðið hjá mér; að miðla sveitahamingju og gleðja lesendur, ekki síst þá sem eiga heima á mölinni eða jafnvel í útlöndum. Þess vegna er dagatalið bæði á íslensku og á þýsku, textarnir eru samt ekki alveg eins heldur skrifaðir með ólíkar þarfir lesendahópanna í huga,“ segir Karólína en hún fluttist til Íslands frá Þýskalandi þar sem hún er fædd. Fæst um allt land Hægt er að kaupa dagatalið beint hjá Karólínu og í verslunum á hennar svæði. Afhendingarstaðir eru eftir samkomulagi á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurlandi og Austurlandi til að spara sem flestum kaupendum dýrt burðargjald. /smh Forsíða dagatalsins fyrir næsta ár. Kaflarnir „sauðalitur mánaðarins“ eru nýjung og upplýsa lesendurna ekki einungis um litbrigð- in svart, mógolsótt, svartbotnótt, flekkótt og margt fleira, heldur er þar að finna einn eða tvo fulltrúa viðkomandi litar í Hvammshlíðarhjörðinni og þeir kynntir nánar.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.