Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2020, Qupperneq 89
Hjúkrunarfræðingarnir sem tóku þátt í rannsókninni mátu
vægi þjónandi forystu í fari yfirmanna sinna í hjúkrun nokkuð
hátt eða 4,62 af 6,0 mögulegum. Það gildi er með því hæsta
sem mælst hefur í rannsóknum á þjónandi forystu í fari yfir-
manna á hjúkrunarsviði á Íslandi (sjá t.d. Gunnarsdóttir, 2014;
Þóra Gunnarsdóttir, 2019). Sá undirþáttur þjónandi forystu
sem mældist öflugastur var fyrirgefning en það gefur til kynna
að hjúkrunarstjórnendur á HSN geti sett sig í spor hjúkrunar -
fræðinganna, sýni hlutkennd og viðurkenningu og að per-
sónulegur ágreiningur trufli ekki samskipti hjúkrunarfræðinga
og hjúkrunarstjórnenda. Þessi niðurstaða er í samræmi við
tvær íslenskar rannsóknir á þjónandi forystu innan hjúkrunar -
sviðs þar sem SLS-mælitækið var notað. Annars vegar er um
að ræða rannsókn Þóru Ákadóttur (2012) meðal sjúkraliða þar
sem fyrirgefning er með hæsta gildið og hins vegar rannsókn
Huldu Rafnsdóttur o.fl. (2015) meðal hjúkrunarfræðinga á
Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem fyrirgefning mælist næsthæst
af undirþáttum þjónandi forystu. De Sousa og van Dieren -
donck (2014) færa rök fyrir að fyrirgefning sé mikilvægur
þáttur við skipulagsbreytingar stofnana enda geta þær valdið
núningi í samskipum og geta leitt til djúpstæðs ágreinings milli
starfsmanna og stjórnenda. Í ljósi hins háa vægis fyrirgefn-
ingar í rannsókninni má álykta að þess konar samskipahættir
hafi verið ríkjandi meðal hjúkrunarstjórnenda á HSN í endur -
skipulagningarferlinu.
Næst á eftir þættinum fyrirgefning kom þátturinn ráðs -
mennska og það gefur til kynna að hjúkrunarstjórnendur á HSN
séu tilbúnir til að bera ábyrgð í víðu samhengi og sýna þjónustu-
lund í stað þess að stjórna sjálfsmiðað. Van Dierendonck og Nu-
ijten (2011) nefna einnig að þátturinn ráðs mennska lýsi sér helst
í því að yfirmaðurinn viti fyrir hvað hann stendur og taki hags-
muni almennings og starfsmanna fram yfir eigin hagsmuni.
Hátt vægi ráðsmennsku í þessari rannsókn er í samræmi við
tvær rannsóknir á hjúkrunarsviði þar sem ráðs mennska var á
meðal tveggja undirþátta þjónandi forystu sem voru með hæsta
vægið (Hulda Rafnsdóttir o.fl., 2015; Þóra Gunnarsdóttir, 2019).
Ráðsmennska í fari yfirmanna er afar mikilvæg við breytingar
á starfsumhverfi því þá taka þeir virkan þátt í að hjálpa starfs-
mönnum að skilja breytingarnar og tilgang þeirra í víðu sam-
hengi (de Sousa og van Dierendonck (2014). Með tilliti til hins
háa gildis ráðsmennsku má álykta að yfirmenn í hjúkrun á HSN
hafi hjálpað hjúkrunarfræðingum á stofnuninni að sjá samruna
stofnananna í merkingarbæru ljósi.
Efling var sá þáttur sem mældist þriðji hæstur af átta undir -
þáttum þjónandi forystu. Þrátt fyrir að bæði fyrirgefning og
ráðsmennska hafi mælst hærri en efling í þessari rannsókn þá
var vægi hans með því hæsta sem mælst hefur á hjúkrunarsviði
hér á landi (sjá t.d. Gunnarsdóttir, 2014; Hulda Rafnsdóttir
o.fl., 2015). Samkvæmt túlkun van Dierendonck og Nuijten
(2011) á spurningum um eflingu gefur þetta háa vægi eflingar
til kynna að yfirmenn á HSN hafi í breytingarferlinu stutt við
starfsumhverfið þannig að starfsmenn hafi haft sjálfstæði og
sjálfræði í starfi og fengið tækifæri til að koma fram með nýjar
hugmyndir. Þannig gefa þjónandi leiðtogar starfsmönnum
tækifæri á að vera virkir þátttakendur í breytingaferlinu og
auka þar með tilfinningu starfsmanna fyrir hlut sínum í breyt-
ingunni en það er eitt af lykilatriðunum í árangursríkri breyt-
ingastjórnun. Með vísan til hins háa vægis eflingar í þessari
rannsókn má því álykta að hjúkrunarstjórnendur á HSN hafi
með eflingu stuðlað að árangursríkri breytingastjórnun í endur -
skipulagningarferlinu við samruna stofnananna.
Fjórði þáttur í styrkleikaröð undirþátta þjónandi forystu í
rannsókninni var auðmýkt en sá þáttur hefur aldrei áður
raðast á meðal fjögurra efstu undirþátta í íslenskum rann-
sóknum á þjónandi forystu á hjúkrunarsviði (sjá t.d. Hulda
Rafnsdóttir o.fl., 2015; Þóra Gunnarsdóttir, 2019). Við skipu-
lagsbreytingar, sambærilegar þeim sem áttu sér stað á HSN
skömmu áður en þessi rannsókn fór fram, getur auðmýkt skipt
miklu máli. Þessi mannkostur í fari yfirmanna gefur rými fyrir
hlustun ásamt því að virða það að breytingar geta valdið óvissu
en það er mikilvægt að taka það til greina og vinna með starfs-
mönnum (de Sousa og van Dierendonck, 2014).
Þrír af undirþáttum SLS-mælitækisins voru undir viðmið -
unarmörkum í rannsókninni en það voru þættirnir hugrekki,
forgangsröðun í þágu annarra og falsleysi. Þrátt fyrir það
mældist vægi síðastnefndu tveggja þáttanna nokkuð hátt og
gefur það ákveðnar vísbendingar um að þessir þættir séu
nokkuð öflugir í stjórnunarstíl yfirmanna á HSN.
Niðurstöðurnar sýndu marktæk jákvæð tengsl milli starfs-
ánægju og þjónandi forystu þannig að meiri starfsánægja þýddi
hærra vægi þjónandi forystu. Athyglisvert er að jákvæðu
tengslin milli starfsánægju og allra undirþátta þjónandi forystu
fyrir utan hugrekki voru marktæk. Þrátt fyrir að hjúkrunarfræð-
ingar á HSN og yfirmenn þeirra í hjúkrun hafi gengið í gegnum
miklar skipulagsbreytingar rétt um hálfu ári áður en rannsóknin
fór fram þá koma þessar niðurstöður heim og saman við aðrar
íslenskar rannsóknir meðal hjúkrunarfræðinga óháð skipulags-
breytingum (sjá t.d. Hulda Rafnsdóttir o.fl., 2015; Sigrún Gunn-
arsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir, 2013) sem hafa skoðað
starfsánægju og þjónandi forystu í fari næstu yfirmanna.
Niðurstöður þessarar rannsóknar um sterk tengsl starfs-
ánægju og þjónandi forystu eru í samræmi við niðurstöður
rannsóknar van Dierendonck og félaga (2009) sem telja að
hlutverk yfirmanna sé að hvetja og styðja starfsmenn sína og
auka sjálfræði í starfi og benda á að hegðun og viðbrögð stjórn-
enda skipti miklu máli fyrir líðan starfsfólksins á vinnu -
staðnum. Því má færa sterk rök fyrir því að hjúkrunarstjórn -
endur hafi tekið skipulagsbreytingar á HSN góðum tökum.
Helsti styrkleiki rannsóknarinnar er að notað var mælitæki
sem reynst hefur bæði áreiðanlegt og réttmætt. Hægt að líta á
það sem veikleika rannsóknarinnar að aðeins 49 hjúkrunar-
fræðingar af 104 tóku þátt í rannsókninni (47,1%) og auðvitað
hefði verið gott að fá svör frá fleiri hjúkrunarfræðingum. Það
er þó mikilvægt að hafa það í huga að þarna var ekki um að
ræða úrtaksrannsókn heldur var spurningalistinn sendur á alla
í þýðinu. Einnig er vert að benda á að svarhlutfallið er svipað
og gengur og gerist í svona viðhorfskönnunum (Baruch og
Holtom, 2008). Ljóst er að hér er aðeins um að ræða gögn eftir
að skipulagsbreytingarnar áttu sér stað og því er ekki hægt að
meta áhrifin af breytingunum sjálfum. Hér eru þó mælingar á
starfsánægju og vægi þjónandi forystu í fari hjúkrunarstjórn-
enda rétt um hálfu ári eftir að ný heilbrigðisstofnun var stofn -
ritrýnd grein scientific paper
tímarit hjúkrunarfræðinga • 3. tbl. 96. árg. 2020 89