Studia Islandica - 01.06.1963, Side 74

Studia Islandica - 01.06.1963, Side 74
68 Mannanöfnin geta því litla vitneskju veitt um dýrkun Óðins, þótt flestir menn með Óðinsnöfnum séu kunnir í Danmörku. Eftir því sem næst verður komizt, hafa fornkonungar Norðurlanda rakið ættir sínar til guðlegra forfeðra, er blótaðir voru til árs. Dýrkun þeirra virðist einnig nátengd Vanagoðum.1 Þetta sést greinilegast af heimildum um Ynglinga í Svíþjóð. Miklu óljósari eru sagnir um Skjöld- unga í Danmörku. Þó minnir sögnin um dauða Fróða Danakonungs um margt á Frey, og Skjöldur eða Skeaf, sem kom siglandi með kornax undir höfði, sver sig greini- lega í ætt til gróðrarvættar. Sú sögn hefur að mestu fallið í gleymsku á Norðurlöndum og er aðeins varðveitt í forn- enskum ritum. Enda sverja síðari Skjöldungar sig miklu meir í ætt Óðins en Freys. Nægir að minna á sagnirnar um Harald hilditönn. Þetta finnst mér eðlilegast að skýra á þann hátt, að trúin á ársæld Skjöldunga hafi dvínað eða jafnvel horfið með öllu, er dýrkun Óðins tók að ryðja sér til rúms og konungar gerðust í fyrsta lagi höfðingjar í ófriði. Þá gleymdust þeir þættir í eðli Skjaldar, er sízt samræmdust herkonungi. Vitað er, að Vanagyðjan Nerþus var tignuð í Danmörku á fyrstu öldum tímatals okkar. En bæði örnefni og rit- aðar heimildir gefa til kynna, að Vanadýrkun hafi verið á undanhaldi í Danmörku á síðustu öldum heiðni, en dýrkun Óðins (og Týs) hafi fest þar dýpri rætur en til að mynda í Vestur-Noregi og Norður-Svíþjóð. Á Gautlandi hefur þetta farið nokkuð á annan veg. Þar hefur Óðinn runnið saman við fornan ættföður eða árguð, Gaut, og verið blótaður til árs. Ástæðulaust er að vefengja, að hin norrænu rit, sem að vísu eru ekki skráð fyrr en um tveim öldum eftir lok heiðni, geymi sannar endurminningar um, að Óðinn hafi um alllangt skeið verið mest tignaður meðal konunga 1 Sjá hér að framan kaflann: Guðlegt konungdæmi.

x

Studia Islandica

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Studia Islandica
https://timarit.is/publication/1542

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.