Náttúrufræðingurinn - 2021, Qupperneq 36
Náttúrufræðingurinn
36
Ritrýnd grein / Peer reviewed
aði smám saman sem fetuðu í fótspor
Howells, og gengu Öræfingar til dæmis
hópum saman á hnjúkinn á árunum
1937 og 1940.
Þegar hefur verið sagt frá Daniel
Bruun (1856–1931) höfuðsmanni sem
ferðaðist mikið hérlendis og skrifaði um
Ísland.39 Hann gerði atrennu að ferð á
hestum upp Brúarjökul 1901 og kannaði
einnig leiðir upp á Skálafells- og Heina-
bergsjökul ári síðar.
Árið 1904 gengu tveir Skotar, Muir og
Wigner, á skíðum með sleða í eftirdragi
128 km leið yfir Vatnajökul, frá austan-
verðum Brúarjökli að Esjufjöllum og
þaðan áfram á jökli suðvestur að Græna-
lóni. Voru þeir samtals í 13 daga á jökli.40
Þýski náttúrufræðingurinn Max
Trautz (1880–1960) gekk fyrstur manna
svo vitað sé ásamt Tómasi Snorrasyni
skólastjóra á Kverkfjöll eystri sumarið
1910 og gerði í framhaldinu endurbættan
uppdrátt af Kverkfjallasvæðinu.41
Í júnímánuði 1912 fóru fjórir menn
undir forystu Johans Peters Kochs
ofursta og landmælingamanns með
fimm hesta til reiðar og níu burðarklára
frá upptökum Kreppu í Brúarjökli suður
í Esjufjöll. Ferðin til baka tók aðeins 18
tíma á jökli í fremur hagstæðu veðri.
Með í för voru Alfred Wegener jarðeðl-
isfræðingur, Andreas Lundager grasa-
fræðingur og Vigfús Sigurðsson, síðar
nefndur Grænlandsfari. Var ferð þessi
eins konar foræfing ferðar yfir Græn-
landsjökul ári síðar.42
Áður hefur verið getið ferðar sænsku
stúdentanna Eriks Ygbergs og Håkons
Wadells. Þeir gengu síðsumars árið 1919
í þoku fram á Grímsvötn, fyrstir manna
á síðari tímum svo vitað sé. Eftir þeim
eru Svíahnjúkar á Grímsfjalli nefndir.43
Tíðindum sætti frumkvæði danska
sendiherrans de Fontenay 1925 þegar
hann ferðaðist um Tröllahraun og
kannaði nær óþekkt svæði við Vatna-
jökul vestanverðan. Hann gekk ásamt
Gunnlaugi Briem laganema á jökulinn
umhverfis Kerlingar og til baka niður
Sylgjujökul.44
Árið 1931 kom hingað þýskur jarð-
fræðingur, Emmy Mercedes Todt-
mann (1888–1973), sem lagði stund á
rannsóknir á jökla- og ísaldarminjum
(18. mynd). Hún átti eftir að koma tíu
sinnum í viðbót hingað til lands, síðast
1972. Hér rannsakaði Todtmann einkum
jaðarsvæði skriðjökla við sunnan- og
norðanverðan Vatnajökul og skrifaði
um niðurstöður sínar fjölda greina.45
Vöktu óbyggðaferðir hennar hérlendis
mikla athygli, ekki síst þar sem hún var
kona, einhleyp og ferðaðist stundum
alein um hálendi Íslands.46
Í júní 1932 fóru tveir Þjóðverjar,
Helmut Verleger og Max Keil, inn eftir
Hoffellsdal og upp Vesturdal á Goða-
borgarhrygg. Frá Goðahnjúkum héldu
þeir á jökli vestur undir Kverkfjöll og
til baka. Mánuði seinna fóru þeir sömu
leið til að ganga á Snæfell frá Háöldu.
Til baka fóru þeir austan Nýju-Núpa
niður Hoffellsjökul.47
Árið 1932 fór breskur rannsóknaleið-
angur frá Cambridgeháskóla úr Staðar-
dal í Suðursveit norður yfir Vatnajökul
að austanverðum Kverkfjöllum og gerði
þar gagnmerkar athuganir. Þorbergur
Þorleifsson í Hólum í Hornafirði var
túlkur þeirra og fylgdarmaður í byggð
og Skarphéðinn Gíslason bóndi á
Vagnstöðum leiddi 28 hesta lest þeirra
inn Staðardal og upp á jökul. Nefndu
Bretarnir lón við jaðar Brúarjökuls
Þorbergsvatn og skriðjökul í aust-
urhlíð Kverkfjalla Skarphéðinsjökul
eftir aðstoðarmönnum sínum sunnan
jökuls.48 Síðar bætti undirritaður við
Skarphéðinstindi (1929 m) sem heiti á
hæsta tindi Kverkfjalla skammt inn af
Skarphéðinsjökli.
Í lok mars 1934 hófst gos í Vatnajökli
og reyndist vera í Grímsvötnum. Náðu
leiðangrar jarðfræðinga og fleiri að gos-
stöðvunum, fyrst Jóhannes Áskelsson
með Guðmundi Einarssyni frá Miðdal
og bróður hans Sveini, ásamt Lydiu Páls-
dóttur Zeitner frá München, síðar eig-
inkonu Guðmundar. Litlu síðar komst
að Grímsvötnum danski landfræðingur-
inn Niels Nielsen, sem skrifaði í kjöl-
farið gagnmerkt rit (19. mynd).49
Eldgosið í Grímsvötnum og Skeið-
arárhlaupið kveiktu áhuga margra á
Vatnajökli, ekki síst þýskra fjallgöngu-
manna sem ítrekað lögðu á jökulinn.
Þannig náðu Karl Schmid, Ernst Her-
mann og Wilhelm Schneiderhan á
Grímsfjall 23. ágúst 1934.50 Sumarið
eftir, 1935, héldu þrír Þjóðverjar, Andrea
de Pollitzer-Pollenghi, Rudolf Leutelt
og áðurnefndur Karl Schmid upp Síðu-
jökul og norður á Bárðarbungu með við-
komu í Grímsvötnum í bakaleið.51 Var
þetta fyrsti hópurinn sem náði alla leið
upp á Bárðarbungu svo vitað sé.52
18. mynd. Emmy Mercedes Todtmann (1888–
1973). Þýskur jarð- og jöklafræðingur. – Ger-
man geologist and glaciologist. Ljósm./Photo
from Flosi Björnsson.
19. mynd. Vatnajökulsbók Nielsar Nielsens
frá 1938. Kápumyndina tók Keld Milthers í
jökulgöngum eftir Skeiðarárhlaup 1934. –
Niels Nielsens' book on Vatnajökull 1938. The
picture, by Keld Milthers, shows glacial tunnel
after flood in Skeiðará 1934.