Þjóðmál - 01.03.2018, Blaðsíða 37
ÞJÓÐMÁL Vor 2018 35
Í vetrarhefti Þjóðmála í desember sl. skrifaði
ég um vandamál sem hugsanlega kæmu
upp í framtíðinni vegna íslenskrar löggjafar
um heimagistingu og þær takmarkanir sem
ríkisstjórn Íslands leggur á eignarétt. Þetta
er ein afleiðingin af aukinni ferðamennsku
og verndarsjónarmiðum löggjafans. Önnur
neikvæð hliðaráhrif eru, að minnsta kosti
að mati sumra, breytingarnar á miðborg
Reykjavíkur. Með fleiri ferðamönnum verðum
við að gera ráð fyrir breyttu þjónustustigi,
hækkandi verði á veitingahúsum og aukinni
ásókn í að byggja hótel. Að öllu þessu
samanlögðu mun borgarumhverfið breytast,
en ekki endilega til hins verra þótt skiptar
skoðanir séu á því. Mikilvægt er að hafa í
huga að það er aukin eftirspurn sem kallar á
þessar breytingar og að aukinn ferðamanna-
straumur skapar atvinnutækifæri og hefur
jákvæð áhrif á efnahag landsins.
Neikvæðu áhrifin af auknum ferðamanna-
straumi eru hins vegar mikil. Náttúran sem
auðlind eða neysluvara hefur einkenni
almenningsgæða þrátt fyrir að ekki sé hægt
að líta á hana sem hreinræktuð almennings-
gæði. Að vissu marki hefur aðgangur minn
að íslenskri náttúru ekki áhrif á aðgang
annarra. Þetta á hins vegar ekki við þegar
fjöldi ferðamanna eykst að því marki að
náttúran fær ekki nægan tíma til að jafna sig
eða þegar tilteknir staðir eru svo yfirfullir af
fólki að upplifunin verður ekki sem skyldi.
Þetta er eitt af því sem ég hef veitt athygli
á milli fyrstu komu minnar til Íslands og
þeirrar síðustu. Í fyrstu heimsókn minni voru
staðirnir sem ég fór á tiltölulega ósnortnir
af mannavöldum. En sumarið 2017 fór ég
á staði þar sem hluti landslagsins hafði
verið girtur af til að halda ferðamönnum frá
ákveðnum svæðum þar sem náttúran hafði
verið troðin niður, þótt sumir þeirra létu sér
fátt um finnast. Annað sem einkennir bæði
náttúruupplifun og almenningsgæði er að
erfitt er að útiloka tiltekna einstaklinga frá því
að njóta þeirra, en þó er það ekki ómögulegt.
Hnignun íslenskrar náttúru, sem er greinileg
næstum hvar sem litið er, stafar af því að
sífellt fleiri ferðamenn þurfa ekki að greiða
raunverulegan kostnað af náttúruskoðun
sinni. Alltaf þegar markaðsverð tekur til alls
kostnaðar reiknum við með ofneyslu. Eins
og ég nefndi að ofan er erfitt að útiloka
einhverja tiltekna einstaklinga frá því að
njóta náttúrunnar sem neysluvöru, einkum
þegar þeir koma bara á staðinn, en þó eru til
leiðir til þess. Ræðum nokkrar af þeim leiðum
sem hægt er að fara til að láta greiðslu standa
undir sjálfbærari nýtingu á náttúrunni.
Í fyrsta lagi geta stjórnvöld lagt skatt á
ferðamenn. Með því að leggja viðbótarskatt
á til dæmis gesti sem koma til landsins eða
hótelgesti hækkar hlutfallslegt verð á ferðum
til Íslands samanborið við ferðir á aðra
staði sem ferðamenn eiga völ á. Afleiðingin
verður sú að færri ferðamenn koma og þar
af leiðandi minnkar álagið á náttúruna. Auk
þess getur ríkisstjórnin notað skattinn til að
hrinda af stað náttúruverndarverkefnum.
Neikvæðar hliðar eru á þessari lausn og ein
af þeim augljósu er að engin afmörkuð
og bein tengsl eru á milli ferða til Íslands
og náttúruskoðunar þótt hún sé markmið
margra ferðamanna. Bjögunaráhrifin eru þau
að ýtt er undir að ferðamenn sem hafa lítinn
eða engan áhuga á náttúrunni heldur aðeins
borgarlífinu í Reykjavík velji frekar aðra
áfanga staði.
Íslenska náttúru [þarf ] að vernda á einhvern hátt. Langskilvirkasta leiðin til þess
er að gefa greiðslufyrirkomulagið frjálst og leyfa landeigendum að taka það
gjald sem þeir telja að dugi til að draga úr álaginu á náttúruna og jafnframt
afla nægra tekna til náttúruverndar og nauðsynlegra fjárfestinga.