Þjóðmál - 01.03.2018, Side 61

Þjóðmál - 01.03.2018, Side 61
ÞJÓÐMÁL Vor 2018 59 Viðreisn hafnaði tillögum nefndarinnar Eftir að hafa metið gögn dómnefndarinnar var það mat dómsmálaráðherra að níu umsækjendur til viðbótar við hina 15 væru jafnhæfir og þar með á meðal hæfustu umsækjenda. Hún hafði þó áður borið upprunalegar tillögur nefndarinnar fyrir þing flokka þáverandi ríkisstjórnar, Viðreisn og Bjarta framtíð. Ljóst var að listi með nöfnum tíu karla og fimm kvenna fengi ekki brautar- gengi á Alþingi. Fréttastofa RÚV greindi frá því 7. júní í fyrra að þingflokkur Viðreisnar hefði gert athugasemdir við lista nefndarinnar þar sem hann uppfyllti ekki jafnréttisskilyrði að mati flokksins. Í frétt RÚV kom fram að Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, hafði sagt á fundi þingflokksins daginn áður að listinn hefði ekki farið í gegn út af jafnréttissjónarmiðum. „Það vorum við sem rákum hana tilbaka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri listanum í gegn,“ sagði Hanna Katrín á fundinum skv. frétt RÚV. Þá er rétt að rifja upp að Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, hafði áður sagt í umræðum á Alþingi að ef það ferli sem nú færi af stað myndi ekki skila jöfnu kynjahlutfalli „er okkur að mæta“ eins og hann orðaði það. Það er ágætt að halda þessu til haga því bæði Hanna Katrín og Andrés Ingi greiddu atkvæði með fyrrnefndri vantrauststillögu á dómsmálaráðherra 6. mars síðastliðinn. Dómsmálaráðherra framkvæmdi viðamikla rannsókn og lagði nýjar tillögur um skipan dómara fyrir þingið. Þá niðurstöðu sína byggði hún á málefnalegum ástæðum, þ.e. með því að auka vægi dómarareynslu eins og hún hefur ítrekað útskýrt. Tillögur ráðherra voru frábrugðnar tillögum nefndarinnar að því leyti að fjórir reyndir héraðsdómarar bættust í hóp hæfustu. Þessir fjórir höfðu ekki aðeins verið metnir hæfir af dómnefndinni vegna Landsréttar heldur einnig þegar þeir voru skipaðir héraðsdómarar á sínum tíma. Svo vildi til að tillagan innihélt eins jafnt kynjahlutfall og hægt var að fá í 15 manna hópi; átta karla og sjö konur. Alþingi samþykkti 15 tillögur ráðherra. Alþingi var í sjálfsvald sett að gera breytingar á tillögunum, taka út nöfn, bæta öðrum við o.s.frv. en gerði það ekki. En það voru ekki bara stjórnmálamenn sem gerðu athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. Í samtali við fréttastofu RÚV í lok maí í fyrra sagði Ingibjörg Þorsteinsdóttir, þá varaformaður Dómarafélags Íslands, að dómsmálaráðherra hefði haft málefnalegar ástæður til að meta dómarareynslu umfram aðra þætti í tillögum sínum um skipan dómara við Landsrétt. „Við gerðum athugasemdir við umsögn hæfnisnefndar þegar að hún birtist og töldum að á henni væru alvarlegir vankantar einkum með tilliti til þess að dómarar telja að það hafi verið litið alvarlega framhjá starfsreynslu þeirra og hvernig hún nýtist í störfum við hinn nýja dóm,“ sagði Ingibjörg. Í fréttinni kom einnig fram að Gunnlaugur Claessen hefði sagt að vægi einstakra þátta (þ.m.t. dómarareynsla) hafi verið hið sama frá 2013 þegar hann tók við embætti formanns nefndarinnar, ef ekki fyrr. Þá sagði hann einnig að nefndin hefði hingað til ekki orðið vör við merkjanlega óánægju talsmanna dómara með vægi einstakra þátta. Ingibjörg taldi þessi rök þó ekki draga úr gagnrýni dómarafélagsins. „Þessi dómnefnd hefur verið lengi og ég hef ekki séð því stað að þetta hafi verið nákvæmlega verið með þessum hætti áður en við höfum náttúrulega gert athugasemdir við niðurstöðu dómnefndar,“ sagði Ingibjörg. Hún sagðist ekki hafa forsendur til að meta hvort ráðherra hefði látið suma einstaklinga njóta dómarareynslu sinnar umfram aðra. Hún segir hins vegar að lögmannafélagið hafi gengið of langt í gagnrýni sinni á ráðherra; málefnaleg rök hafi verið fyrir því að meta vægi dómarareynslu umfram aðra þætti.

x

Þjóðmál

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.