Þjóðmál - 01.03.2018, Blaðsíða 78
76 ÞJÓÐMÁL Vor 2018
Bjarni sagði að mikilvægt væri að stoðirnar
EFTA-megin sem EES hvíldi á væru ekki skildar
eftir út undan og látið eins og þær væru
aukaatriði. Benti hann þannig á að á sama
tíma og Evrópusambandið væri að koma á fót
nýjum stofnunum eða fela eldri stofnunum
sínum aukin verkefni leyfði sambandið sér að
beita því sjónarmiði gagnvart EFTA-ríkjunum
að engin ástæða væri til þess að láta EFTA-
stoðina takast á við sömu verkefni. Þetta eitt
og sér væri gríðarlega alvarlegt. Sagði Bjarni
íslenzk stjórnvöld verða vör við vaxandi tregðu
hjá Evrópusambandinu í þessum efnum þar
sem allir yrðu að falla í sama mótið. Tekið væri
illa í óskir um sérlausnir og undanþágur.7
Þrátt fyrir tveggja stoða kerfið eru EFTA/
EES-ríkin þegar í raun óbeint undir yfirstjórn
stofnana Evrópusambandsins sett. Einkum
og sér lagi á það við um Evrópudómstólinn,
æðsta dómstól sambandsins. Þannig er
skýrt kveðið á um það í EES-samningnum
að EFTA-dómstóllinn verði að taka mið
af dómsúrlausnum Evrópudómstólsins
en Evrópudómstólnum ber hins vegar
engin lagaleg skylda til þess að fara að
dómsúrlausnum EFTA-dómstólsins þótt hann
kjósi annað slagið að gera það.
Eins kemur skýrt fram í bókun 48 við
samninginn að komi til ágreinings megi
ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar
ekki hafa áhrif á dómaniðurstöður Evrópu-
dómstólsins. Ekkert er hins vegar minnzt á
sambærilegt hlutverk fyrir EFTA-dómstólinn.8
Einnig má nefna að samkvæmt 111. grein
EES-samningsins geta aðilar hans samþykkt
að fela Evrópudómstólnum að úrskurða ef
ágreiningur er um túlkun hans.9 Ekkert slíkt
hlutverk er fyrir EFTA-dómstólinn. Þannig
hefur Evrópudómstóllinn einnig stöðu
gerðardóms samkvæmt samningnum.
Þannig er ljóst að Evrópudómstóllinn er
hugsaður sem æðri dómstóll en EFTA-
dómstóllinn samkvæmt EES-samningnum.
Stjórnsýslan ekki nógu
stór fyrir EES-samninginn
Talsvert hefur verið rætt í gegnum tíðina
um löggjöf frá Evrópusambandinu sem
Ísland þarf að taka upp einhliða vegna EES-
samningsins. Þó að fullyrðingar um að Ísland
hafi tekið yfir mikinn meirihluta regluverks
sambandsins standist ekki nánari skoðun
benda upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu
til þess að sá hluti regluverksins sem tekinn
er upp í EES-samninginn fari vaxandi. Þannig
reyndist hlutfallið 6,5% á tímabilinu 1994-2004
samkvæmt svari þáverandi utanríkisráðherra
við fyrirspurn á Alþingi en var hins vegar komið
í 16% þegar tímabilið 2005-2014 var skoðað.10
Fyrir liggur að regluverk Evrópusambandsins
sem tekið hefur verið upp hér á landi hleypur
á fleiri þúsundum gerða, stórum og smáum.
Talað hefur verið um að gæta þurfi betur að
hagsmunum Íslands í gegnum stjórnsýsluna
en staðreyndin er hins vegar sú að hún
hefur vart undan að afgreiða einungis það
regluverk sem kemur frá sambandinu.
Eins og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í
forsætisráðuneytinu, sagði í samtali við
Ríkisútvarpið í febrúar 2016 er smæð stjórn-
sýslunnar ein helzta ástæða þess að ekki hefur
gengið nógu vel að innleiða regluverkið.11
Þetta þarf vart að koma á óvart, enda um að
ræða regluverk sem hannað er fyrir margfalt
stærri ríki en Ísland. Álagið í þessum efnum
hefur færzt smám saman í aukana og litlar
líkur eru á öðru en að svo verði áfram. EES-
samningurinn er í raun eins og opinn tékki.
Við höfum fallizt á að taka upp löggjöf
Evrópusambandsins um innri markað þess
sem á við hér á landi. Ólíklegt verður að
teljast að það leggist að minnsta kosti vel
í hægrimenn að þenja út stjórnsýsluna í
vaxandi mæli á komandi árum til að innleiða
regluverk sambandsins, svo ekki sé talað um
framfylgja því.
EES-samningurinn er einfaldlega barn síns tíma. Tímabært er í hans stað að
horfa til þeirra leiða sem ríki heimsins eru að fara í milliríkjaviðskiptum í dag.