Þjóðmál - 01.03.2018, Blaðsíða 52
50 ÞJÓÐMÁL Vor 2018
Veik staða Rússlands
Efnahagur Rússlands er í grunninn bágborin
vegna alvarlegra undirliggjandi veikleika,
sem ekki er tekið á. Hagvaxtartölur í Rúss-
landi eru því daprar og litlar líkur á að rætist
úr og herinn líður fyrir efnahagsástandið.
Framlög til hans fara minnkandi og eru
reyndar mjög lítil í samanburði við helsta
keppinautinn, Bandaríkin. Við tiltölulega
þrönga fjárhagsstöðu rússneska hersins
bætist að hergagnaframleiðslan er
óhagkvæm og óskilvirk.
Rússland er því ekki stórveldi á hernaðar-
sviðinu nema vegna þess að það á kjarna-
vopn. Engar líkur eru því á að það verði arftaki
Sovétríkjanna á meginlandi Evrópu eða yfir
höfuð stórveldi þar. En það hefur yfirburði yfir
nágrannaríki og er svæðis bundið stórveldi,
ef svo má orða það, á áhrifasvæði sem nær til
nágrannaríkja og fyrrum Sovét lýðvelda.
Áhugi Bandaríkjahers á Íslandi verður
takmarkaður um fyrirsjáanlega framtíð
og litlar líkur á að hann hafi hér aftur fasta
viðveru á friðartímum. Forsenda þess væri
að grundvallarbreytingar yrðu í uppbygginu
alþjóðakerfisins og á valdajafnvægi á
meginlandinu.
Hernaðarlegur viðbúnaður Rússa á norður-
slóðum á rætur í almennri hernaðar- og
öryggis stefnu Rússlands, einkum að þeim
þætti er lýtur að öryggi kjarnorkuheraflans. Í
þeirri endurnýjun rússneska hersins sem nú á
sér stað hefur forgang að varðveita öryggi ríkis
og ríkisvalds með fælingarmætti kjarnavopna
annars vegar og hins vegar með landher sem
beita megi til að tryggja áhrifa svæði Rússlands
í fyrrverandi sovétlýð veldum.
Áhugi Bandaríkjamanna
á Keflavík vaknar á ný
Áhugi Bandaríkjahers á aðstöðu á Kefla-
víkurflugvelli hefur kviknað á ný. Hann lýtur
ekki að fastri viðveru, heldur tímabundinni
staðsetningu kafbátaleitarflugvéla á
flugvellinum til æfinga og til að leita að eða
veita eftirför rússneskum kafbátum þegar
þeir eru á kreiki á svæðum út frá landinu.
Þótt á síðustu árum hafi sést aftur til
rússneskra kafbáta á Norður-Atlantshafi
virðast þeir hafa verið fáir og mjög langt frá
því sem var í kalda stríðinu, enda kafbátafloti
Rússlands margfalt minni en hinn sovéski var
og að auki kominn mjög til ára sinna. Komum
leitarflugvéla til Keflavíkur hefur farið
fjölgandi en að mestu leyti að því að virðist
vegna æfinga og þjálfunar fremur en til að
leita að eða elta rússneska kafbáta.
Áhuginn á aðstöðu fyrir kafbátaleit lýtur að
því að geta aflað nauðsynlegra tæknilegra
upplýsinga um rússneska kafbáta, þegar
færi gefst til þess og viðhaldið leikni áhafna
leitarflugvéla við að finna þá og fylgja þeim
eftir. Þetta er gert frá Íslandi þegar kafbátar
leggja leið sína vestur um Atlantshaf til
hafsvæða í nágrenni Íslands og út fyrir
leitarsvæði sem sinnt er frá bækistöðvum í
Noregi eða Skotlandi.
Þetta varðar einkum þá varanlegu hagsmuni
Bandaríkjanna að vera viðbúin ef hættutími
í alþjóðamálum hreyfði við kjarnavopnajafn-
væginu og mikilvægum öryggishagsmunum
þeirra þar að lútandi í norðurhöfum.
Rússland er því ekki stórveldi á hernaðarsviðinu nema vegna þess að það
á kjarnavopn. Engar líkur eru því á að það verði arftaki Sovétríkjanna á
meginlandi Evrópu eða yfir höfuð stórveldi þar.