Þjóðmál - 01.03.2018, Qupperneq 92
90 ÞJÓÐMÁL Vor 2018
Niðurstaða
Samskipti Breta og Íslendinga hafa verið
mikil að fornu og nýju, og hefur þar gengið
á ýmsu. Eftir að verulega slettist upp á
vinskapinn í stóratburðum alþjóðlegu
fjármálakreppuna 2007-2009, var slétt úr
fjöðrunum eftir úrskurð EFTA-dómstólsins
í janúar 2013 í s.k. „Icesave-máli“. Með
sögulegri útgöngu Breta úr ESB blasir við
sú nýja staða, að þrír meginmarkaðir verða
fyrir vöruviðskipti í Evrópu, sá brezki, Innri
markaður EES og Evrópa austan ESB.
Könnun Sentiomåling í nóvember 2017
sýndi, að um 70% aðspurðra Norðmanna,
sem afstöðu tóku, vilja ekki afhenda ESB/
ESA úrslitavöld um orkumálefni Noregs. EES
hefur tekið upp sameiginlega matvælastefnu
og sameiginlegar reglur um fjármálaeftirlit.
Ekki mun kostnaðurinn við matvælaeftirlit og
fjármálaeftirlit á Íslandi minnka við þá skipan.
Tilskipanaflóðið frá ESB hefur orðið íslenzku
atvinnulífi verulega íþyngjandi, og hafa
málsvarar fyrirtækjanna, einkum hinna minni,
kvartað undan þessu.
Um þverbak keyrir nú, þegar ESB, í viðleitni
sinni til æ nánara samstarfs aðildarríkjanna,
hefur ákveðið að láta EES-samninginn spanna
frjálst flæði orku á milli landanna. Þar með
getur ESB læst klónum í „græna“ orku Noregs
og Íslands án þess lýðræðislega kjörin yfir-
völd þessara landa fái rönd við reist.
Þar með hefur skörin færzt svo mjög upp í
bekkinn, að engan veginn verður við unað,
heldur ættu Íslendingar og Norðmenn
að segja upp EES-samninginum, ef sá vilji
þjóðanna birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu, og
stefna síðan eindregið að tvíhliða viðskipta-
samningum við Bretland, ESB og fleiri ríki.
Það er litlum vafa undirorpið, að hagsmunum
þessara bræðraþjóða verður bezt borgið með
slíku fyrirkomulagi, enda gerist þá engin þörf
á hráskinnaleik með stjórnarskrár ríkjanna.
Höfundur er rafmagnsverkfræðingur.
Heimildir:
1. Sviðsljósgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu,
16.11.2017, „Segja að veikindaálagið muni aukast“, þar
sem sérfræðingarnir Karl G. Kristinsson og Vilhjálmur
Svansson rökstuddu, hvers vegna hættulegt er að auka á
smithættu frá innfluttum matvælum í þá veru, sem ESA
og EFTA-dómstóll hafa úrskurðað, að Íslendingum beri að
gera til að uppfylla EES-samninginn.
2. Fyrirlestur Þorvaldar Friðrikssonar, fornleifafræðings
og fréttamanns, á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags
Íslands, 14.04.2017, og væntanleg bók hans um gelísk
áhrif á Íslandi að fornu.
3. Vefsetur norsku andófssamtakanna gegn ESB: http://
www.neitileu.no
4. Morgunblaðsgrein Mortens Harper, 25.11.2017, „Af
hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-
samningsins“. Þetta er brautryðjandi heimild í seinni tíð á
Íslandi um nauðsyn þess að segja skilið við EES.
5. Skýrsla Hjartar J. Guðmundssonar, alþjóðastjórnmála-
fræðings, desember 2017: „The EEA is not the Way“ á
vefsetrinu http://www.theredcell.co.uk