Strandapósturinn - 01.06.1980, Qupperneq 70
réttina, þóttust menn sjá að hliðið væri hlaðið með útfalli.
Augasteinar í kindum breyta um lögun verða flatir eða kúptir
eftir því hvort flóð er eða fjara.
Torf var alltaf rist með minnkandi tungli, þá var jarðvegurinn
miklu seigari og torfurnar þoldu betur flutning, voru þéttari í sér
og veittu betri vörn því vatn fór miklu minna i gegn um þær
heldur en torf, sem rist var með vaxandi tungli, þar sem það var
lausara í sér og veitti minna viðnám.
Þegar farið var að hlaða eða steypa reykháfa var það gert með
útfalli, þá átti reykurinn að sogast betur út frá eldstæðinu.
Þegar fé var slátrað heima (heimaslátrun), var það gert með
útfalli, þá fékkst meira blóð úr skepnunni, en blóð var einn
mikilvægur þáttur í fæðuöflun heimilanna.
Veðrátta fór eftir því í hvaða átt tunglkveikjan varð hverju
sinni (tunglið sprakk út), til dæmis, ef tunglkveikjan varð kl. 12
(24) að nóttu, þá var vís norðanátt með kulda á því tungli og
kafaldshríðum að vetrarlagi, en ef tunglkveikjan varð kl. 12 á
hádegi, þá var vís sunnanátt og hlýviðri og var mikil trú á það
hvar tunglið sprakk út.
Þegar tungl var á fyrsta kvartili gátu menn séð á lögun þess og
lit hvernig veðráttan yrði á því tungli, ef horn mánans voru hvöss
eða tunglið var rautt var það merki þess að mjög stormasamt
yrði á því tungli, ef það var bleikt á lit var það órækt merki um
mikla úrkomu.
Að sjálfsögðu var tunglið haft sem tímamælir í mörgum til-
fellum samanber vísuna Þá þorratunglið tínætt er, tel ég það
lítinn háska. Næsta sunnudag nefna ber, níu vikur til páska.
Óskir manna og vonir áttu að rætast eftir því hvernig þeim var
svarað í sumartunglið.
Eflaust mætti geta um margt fleira í sambandi við tunglið
þennan næsta nágranna okkar jarðarbúa, en nú eru menn búnir
að stíga fótum á þennan himinhnött er áður virtist svo fjarlægur
og við nánari kynni verður allskonar gamall átrúnaður og sér-
viska léttvæg fundin, en sumt af því sem hér er umgetið að
framan á enn ítök í hugum sumra manna og flóð og fjara eru
staðreynd, sem ekki verður framhjá gengið.
68