Strandapósturinn - 01.06.1984, Page 27
ráð voru til að koma því á kirkjustað? Isinn þéttist og var á
stöðugu reki. Þá sýndi sig að sá er vinur sem í raun reynist.
Finnboga Guðmundssyni á Finnbogastöðum og pabba hafði
verið vel til vina og þar sem Finnbogi var atorkusamur og vel-
viljaður gekk hann fram í að leita færis, er ísinn lónaði frá, að fá
mótorbát til að sækja líkkistuna og koma á kirkjustað. Af hús-
kveðju gat ekki orðið við slíkar aðstæður (á þeim árum var venja
að halda húskveðjur, sérstaklega ef um húsráðendur var að
ræða). Jók það á einstæðingskennd okkar að það var ekki fram-
kvæmanlegt. Ekki mátti heldur tæpara standa því ísinn þjapp-
aðist saman, allt upp í landsteina, og hrakti á undan sér mörg
eyfirsk skip sem leituðu afdreps inni á fjörðum. Prestsekkjan fékk
séra Jón Brandsson á Kollafjarðarnesi til að jarða mann sinn.
Þeir höfðu verið skólabræður og vinir. Um leið fór fram jarðarför
föður míns. Mátti heita að það vor og sumar væri tvennt jarðað í
einu að Árnesi, svo margir féllu í valinn, flestir um aldur fram.
6. júní voru f2 börn fermd í Árneskirkju af séra Guðlaugi
Guðmundssyni á Stað í Steingrímsfirði sem þjónaði Árnes-
prestakalli til næsta vors. Hefi ég áður getið þess mæta manns og
er hann mér ógleymanlegur.
Þó öll sund virtust lokuð hélt lífið áfram sinn vanagang. Ná-
grannarnir voru hjálpsamir, hver eftir sinni getu og auðfundinn
var vinarhugur og samúð. Vil ég sérstaklega minnast sauma-
konunnar, Jónínu Jónsdóttur í Norðurfirði. Vinfengi var með
henni og móður minni. Saumaði hún tíðum á bæjum, aðallega
fyrir jól og fermingar. Svo hafði einnig verið nú. Hún var búin að
sauma á mig það sem hentaði til fermingar, svo sem peysuföt og
annað þeim tilheyrandi. Allt virtist leika í lyndi og tilhlökkunin
að komast í kristinna manna tölu ofarlega í huga. Ekki gerði
Jónína ráð fyrir að koma aftur bráðlega að Kjós. Þó varð reyndin
sú þegar hún frétti hver umskipti höfðu orðið á þeim stutta tíma
sem liðinn var síðan hún og allir á heimilinu áttu saman gleði-
stundir, óvitandi skjótra veðrabrigða. Fórnarlund hennar og
hjálpsemi voru okkur ómetanlegur styrkur og kveikti vonar-
neista þó dimmt væri framundan. Slíkt gleymist aldrei. Leiðir
25