Strandapósturinn - 01.06.1984, Síða 29
hefur lítt af að segja. Árangur af öllu þessu erfiði varð sá að þeir
sem á skipunum biðu komu jafnt þeim í áfangastað sem lagt
höfðu land undir fót í von um að komast fyrr heim til sín.
Veturinn eftir, 1916, kom skip, sem oft var, inn á Kjósarvík-
ina. Bátur kom í land. Var þar kominn Benóný, sem fyrr var
greindur. Vildi hann heilsa upp á fólk það sem deilt hafði með
þeim andstreymi og leiðindum síðastliðið vor.
Sumarið kom og það annríki sem því fylgdi. Afi var við slátt og
bindingu og Stína að mestu við sláttinn og gaf hún síst eftir
karlmönnum við þann starfa. Við Óli rökuðum á eftir þeim í
fangahnappa sem síðan var bundið úr þegar komið var það
mikið að dagbinding væri. Svo var Óli látinn fara til róðra því
aðdrátta var brýn þörf. Símon var smali og veiddi silung í soðið í
síkinu, bara á öngul sem festur var á prik. Að leggja net við
sandinn fór meiri tími til sem misstist þá frá heyskapnum. En
Símoni lét þetta vel milli þess er hann gætti ánna.
Svo var það snemma á engjaslætti að mamma skrapp til
ísafjarðar. Ingvar Pétursson, frændi og uppeldisbróðir hennar,
lagði fast að henni að koma og afi taldi það ekki úr. Það mundi
taka 2—3 vikur, skipið fór til Reykjavíkur og snéri þar við til
baka. Ingvar var sem bróðir hennar, svo kært var með þeim. Við
réðum ráðum okkar hvernig skyldi að störfum standa. Það varð
að hita kaffi og sjóða nónmat á engjunum. Stína mjólkaði ærnar
og aðra kúna en ég hina. Skilja varð mjólkina og fleira er með
þurfti. Börnin urðum við að hafa með okkur á engjarnar. Ekki
dugði að sitja heima nema á málum. Glænýr silungur var soð-
inn, stundum fiskur. Hlóðirnar voru færðar til eftir því sem
henta þótti hverju sinni, að ekki væri langt að vitja matseldar,
svo minnstur tími færi til þess. Blíðir miðsumardagar gleymast
ekki, blandnir sælu og sorg. Fagur var Reykjarfjörður yfir að líta
úr Kvíaklettaflatnum eða Miðhólssundunum en á þeim stöðum
vorum við að heyja um þessar mundir. Dásemdir náttúrunnar
blöstu við augum hvert sem litið var. Hlaut sá ekki að vera
máttugur er allt þetta hafði skapað og stjórnaði, enda þó ekki
yrði ætíð skildir hans órannsakanlegu vegir?
Þegar þurrkur var vorum við heima að þurrka og hirða.
27